Menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar og styrkir afhent

23.2.2018

Fimmtudaginn 22. febrúar var mikið um dýrðir hér í Sveitarfélaginu Hornafirði en þá fór fram afhending styrkja, Menningarverlauna og umhverfisviðurkenninga  sveitarfélagsins við húsfylli í Nýheimum. Alls voru  23 styrkir veittir á viðburðinum, en voru það styrkir menningarmálanefndar, bæjarráðs, sem og styrkir út atvinnu- og rannsóknarsjóði.

Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri setti viðburðinn greindi hann frá mikilvægi þess að bjóða bæjarbúum upp á hátíðarviðburð þegar menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar og styrkir sveitarfélagsins eru afhent.  Viðburðurinn minnir okkur á hversu fjölbreytt og mikil gróska menningar og frumkvöðla er í samfélaginu okkar.

Kristín Gestsdóttir afhenti menningarverðlaun í hennar máli kom fram, að menningin er allt sem á sér stað á milli manna í samfélaginu okkar. Við búum okkur til okkar menningu. Menningin eru líka samskipti okkar og það sem við gerum á hverjum degi.  Menning er það sem við gerum og þau áhrif sem við höfum á aðra með því að framkvæma.

Fjórtán voru tilnefndir til menningarverðlauna árið 2017, sagði Kristín að tilnefningin segir þeim sem eru tilnefndir að þeir hafa áhrif á aðra með því að vinna að því sem þeir gera, sýna og framkvæma. Áhrifin eru augljós og smita menningu okkar nýrri hugsun.

Var það Þorvarður Árnason forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Hann hefur fengist við ljósmyndun og kvikmyndagerð í um þrjá áratugi samhliða fræðistörfum. Hann hefur verið duglegur við að birta myndir og fjalla um fegurð landsins og fjarðarins. Myndir sem laða að gesti til okkar sem langar í lifanir af fegurðinni. Þorvarður var með sýningu á Nýtorgi sem stóð frá apríl til sept. Og einnig tók hann myndir sem sýndar eru í jökulheimum í Hoffelli og var sýningin opnuð í apríl s.l. þessar sýningar voru í tengslum við ráðstefnuna Jöklar í bókmenntun, listum og lífinu. 

Styrkir atvinnu- og rannsóknarsjóðs

Árdís Erna Halldórsdóttir atvinnu- og ferðamálafulltrúi afhenti styrki úr atvinnu og rannsóknarsjóði. Sagði hún að gróskumikið athafnalíf og rannsóknastarf vera í miklum blóma, en það voru rannsóknartengd verkefni sem einkenndu umsóknir í atvinnu- og rannsóknasjóð að þessu sinni.

Alls bárust atvinnumálanefnd 7 metnaðarfullar umsóknir í sjóðinn og var heildarupphæð umsókna upp á fjórar milljónir króna. Alls eru 2.6 milljónir króna til úthlutunar.

 Náttúrustofa Suðausturlands styrk upp á eina milljón króna úr A sjóði fyrir verkefnið „Mat á ástandi beitarlands á Kvískerjum 2018

Markmið verkefnisins er að kortleggja gróðurfar og meta ástand beitarlands í landi Kvískerja í
Öræfum. Svæðið frá Múlagljúfri og vestur að Vattárárgljúfri verður skoðað, en með sérstakri áherslu á svæðið í kringum þjóðveginn og upp að fjalli. Talsverð sauðfjárrækt er í sveitarfélaginu auk þess sem fjalllendi er einnig búsvæði hreindýra. Er því brýn þörf á að kortleggja gróðurfar í sýslunni til að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands.

Fjögur verkefni hlutu styrk úr B sjóði þeir sem hlutu styrkina voru:

Nýheimar Þekkingarsetur 400 þúsund  í verkefnið „Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun“

Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúrustofa Suðausturlands hlutu 350 þúsund króna styrk til að sækja forn tréð sem fannst við norðanvert Jökulsárlón, forverja það og gera að sýningargrip innan héraðs.

Fuglaathugunarstöð Suðausturlands fékk 450 þúsund til að viðhalda rannsóknum Hálfdáns Björnssonar heitins frá Kvískerjum með því að kortleggja varpútbreiðslu skúms, sem og að merkja skúmsunga á Breiðamerkursandi.

Náttúrustofa Suðausturlands hlotið 400 þúsund króna styrk úr atvinnu- og rannsóknasjóði til að meta „Uppskerutap vegna gæsaágangs í ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018“, en sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á Suðausturlandi árið 2014.

Umhverfisviðurkenningar 2017

Sæmundur Helgason formaður umhverfisnefndar afhenti umhverfisviðurkenningar sagði að tilgangur umhverfisviðurkenninga að vekja íbúa til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis fyrir samfélag og atvinnulíf í sveitarfélaginu og hvetja þá til að sýna því tilhlýðilega virðingu með sjálfbærri þróun að leiðarljósi.

Rannveig Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir einstaklings framlag í þágu skógræktar og umhverfismála. Rannveig hefur í gegnum áratugi unnið ötullega að ýmsum umhverfismálum.  Í störfum sínum sem landvörður, blómasali, í nefndum og ráðum hefur hún verið talsmaður náttúrunnar þannig að eftir er tekið. Í óeigingjarnri sjálfboðavinnu, sem félagi í Ferðafélagi A-Skaftfellinga, Hollvinum Hornafjarðar og Skógræktarfélaginu er okkur hinum augljóst að hjarta hennar brennur fyrir náttúruvernd.

Gunnhildi Lilju Gísladóttur og Valgeiri Steinarsson hlutu viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega lóð að Austurbraut 10. Í umsögn kom fram að viðurkenningin er veitt fyrir fallegan garð og fallegt og vel viðhaldið hús. Garðurinn er vel hirtur, með runnagróðri, trjám og blómgróðri sem raðað hefur verið saman af natni.

Galcier Adventure hlaut viðurkenningu fyrir umhverfisvæna ferðarþjónustu. Glacier Adventure er ungt ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í jökla- og fjallatengdri ferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls.  Ferðir Glacier Adventure ganga út á að njóta íslenskrar náttúru og um leið fræðast um loftlagsbreytingar, menningu, sögu og lifnaðarhætti frumbyggja svæðisins.

Athöfnin var hátíðleg tvö ungmenni fluttu tónlistaratriði, Oddleifur Eiríksson spilaði á harmonikku lagið „Stungið af“ eftir Jóhannes Jóhannesson. Dagmar Lilja Óskarsdóttir söng  lagið Believe eftir Cher en hún söng það lag þegar hún sigraði í Söngkeppninni USS eða undankeppni söngkeppni Samfés á Suðurlandi.