Ný hitaveita á Hornafirði

5.8.2020

RARIK hefur sett upp upplýsingasíðu um hitaveitu í Hornafirði, hægt verður að leita svara við spurningum íbúa á síðunni. 

Á árinu 2019 var unnið að undirbúningi fyrir nýja hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nágrenni. Vinna við stofnpípulögn frá virkjunarsvæðinu á Hoffelli í Nesjum til Hafnar hófst í haust og er gert ráð fyrir að henni og smíði dæluhúsa ljúki sumarið 2020. Þá er stefnt er að því að tengja dreifikerfið á Höfn við jarðhitasvæðið á Hoffelli og hætta rekstri fjarvarmaveitunnar á Höfn, sem hefur hitað vatn með rafmagni eða olíu. Haldinn var íbúafundur um nýju hitaveituna í nóvember 2019 sem var vel sóttur. Þar kom meðal annars fram að öll hús á Höfn og mörg í Nesjum geti tengst nýju hitaveitunni og að það geti stuðlað að auknum lífsgæðum og lægra orkuverði til framtíðar.