Sérstakur íþrótta- og tómstundastyrkur fyrir börn frá tekjulágum heimilum skólaárið 2020-2021
Börn fædd 2005-2014 sem búa á tekjulægri heimilum eiga rétt á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum sem koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum á skólaárinu 2020-2021. Ekki er heimilt að nýta íþrótta- og tómstundastyrk til greiðslu á tækjum, búnaði, fatnaði og ferðum.
Um er að ræða afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2020 og lögum nr. 26/2020. Styrkir þessir eru veittir af sveitarfélaginu á grundvelli VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem eru fædd 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars til júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. fyrir hvert barn.
Til þess að sækja um styrkinn þarf fyrst að fara inn á www.island.is og kanna hvort heimilið falli undir ofangreint tekjuviðmið. Ef réttur er til staðar er farið inn á íbúagátt sveitarfélagsins, og sótt um sérstakan íþrótta og tómstundastyrk fyrir skólaárið 2020/2021. Afrit í PDF formi sem staðfestir rétt til styrksins á island.is og greiðslukvittun fyrir kostnaði vegna íþrótta- og tómstundastarfs skal fylgja umsókn á íbúagátt.
Ef óskað er eftir frekari upplýsingum eða aðstoð við umsóknarferlið er hægt að senda póst á skuliing@hornafjordur.is eða hafa samband í síma 470-8000.
upplýsingar á hinum ýmsu tungumálum eru á youtube.com