Stóri plokkdagurinn 24. apríl 2022

19.4.2022

Eftir vindasaman vetur ber víða á plasti og öðru rusli í umhverfinu. Þetta er einkar áberandi á Höfn og er mikilvægt að þessi úrgangur komist í réttan farveg áður en hann ýmist hverfur á haf út eða grefst í náttúruna.

Margar hendur vinna létt verk og því skiptir framtak einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka heilmiklu máli fyrir umhverfið og samfélagið. Plokkinu fylgir jafnframt góð og heilbrigð hreyfing, útivera og jafnvel ágætis félagsskapur.

Á hverju ári stendur hópurinn Plokk á Íslandi fyrir Stóra plokkdeginum en hann er hugsaður sem upphaf plokk tímabilsins, vitundarvakning og hvatning. Hópurinn telur rúmlega 7.400 manns sem þegar er kominn á fullt við að plokka í sínu umhverfi. Dagsetning Stóra plokkdagsins hentar vel því nú er vorið farið að láta á sér kræla, snjór horfinn úr byggð og ruslið bíður eftir því að komast í réttan farveg.

Á heimasíðu Plokk á Íslandi, plokk.is, má nálgast hagnýtar upplýsingar um gagnsemi þess að plokka og ýmis góð ráð því tengdu. Þá hafa meðlimir hópsins verið duglegir við að deila myndum á Facebook-síðu Plokk á Íslandi. Það verður gaman að sjá hvort myndir frá plokkurum í sveitarfélaginu rati þangað inn.

Plokkarar geta losað sig við afrakstur sinn í merkt kör við Áhaldahúsið, Álaleiru 2, yfir næstu helgi þ.e. 23. – 24. apríl.

Ég vil því hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að leggja sitt af mörkum og taka þátt í Stóra plokkdeginum sunnudaginn 24. apríl.

Verkefnastjóri umhverfismála

Þessi pistill byggir á grein Einars Bárðarsonar, sjálfboðaliða hjá Plokk á Íslandi, sem ber nafnið “Stóri plokkdagurinn, vertu með” og birtist í Fréttablaðinu þann 12. apríl 2022.