Um tómstundastyrk og gengingu við Nora skráningar- og greiðslukerfi

7.12.2017

Sveitarfélagið Hornafjörður veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í sveitarfélaginu, tómstundastyrki vegna náms við Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu og þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. 

Meginmarkmið tómstundastyrksins er að öll börn á þessu aldursbili geti tekið þátt í uppbyggilegu tómstundastarfi óháð efnahag.

 

Hingað til hafa foreldrar greitt gjöldin vegna þátttöku barnanna, framvísað greiðslukvittun í afgreiðslu ráðhússins og gefið upplýsingar um bankareikning sem styrkurinn hefur svo verið lagður inn á. Þetta fyrirkomulag verður haft áfram vegna greiðslna skólagjalda fyrir nám í Tónskólanum. Auk skólagjalda í Tónskólanum er hægt að nota tómstundastyrkinn til að greiða fyrir íþróttaiðkun í öllum deildum Umf. Sindra, reiðnámskeiðum á vegum hestamannafélagsins, skáknámskeiðum og fleiri tilfallandi tómstundanámskeiðum. Þann 1. janúar 2018 verður opnað fyrir nýja tengingu milli Nora skráningar- og greiðslukerfis þannig að þegar foreldrar skrá börn sín til þátttöku í viðurkenndu tómstundatilboði inni í kerfinu þá geta þeir valið að tómstundastyrkurinn verði að hluta til eða allur, notaður til að greiða kostnað við þátttökuna. Þetta einfaldar greiðsluferlið og sparar foreldrum sporin.

 

Á hverju ári er eitthvað um það að foreldrar barna nýti ekki rétt sinn til tómstundastyrks, en styrkurinn fellur niður í lok árs ef hann er ekki nýttur. Upphæð tómstundastyrks 2017 er kr. 40.000- á barn en bæjarstjórn hefur samþykkt að hækka styrkinn fyrir árið 2018 upp í kr. 50.000- fyrir hvert barn. Foreldrar eru hvattir til að nýta styrkinn og kynna sér nánar reglur um tómstundastyrk á www.hornafjordur.is undir reglur og samþykktir.