UMF Sindri ásamt sveitarfélaginu fjárfesta í félagsaðstöðu

19.12.2017

Ágæta Sindrafólk og Hornfirðingar allir, til hamingju með nýtt félagsheimili. Það framfara skref var stigið 15. desember að Ungmennafélagið Sindri ásamt sveitarfélaginu keypti Landsbankahúsið að Hafnarbraut 15.

Allt er þegar þrennt er

UMF. Sindri var stofnað 1. des 1934 og hefur starfað óslitið síðan þó vissulega hafi starfsemin verið misþróttmikil. Félagið hefur reynt eftir bestu getu að samlaga sig tíðarandanum  og bregðast við þeim áskorunum sem eru á hverjum tíma og nú teljum við áskorunina vera meira félagslíf meiri samveru og aðeins minna af snjalltækjum.

1944 eignaðist Sindri fyrstu félagaðstöðu sína en það var Bíóbragginn sem staðsettur var á Heppunni (rétt hjá Íshúsinu). Eftir stríð hafði fólki gefist kostur á að kaupa herbraggana sem voru út á Suðurfjörum. UMF. Sindri keypti tvo og sameinaði á Heppunni og undir forystu Eymundar Sigurðssonar og dyggri aðstoð utanfélagsmanna var Bíóbragginn vígður haustið 1944 (Saga Hafnar II bls. 398).

1955 var hafist handa við að byggja Sindrabæ og var hann tekinn í notkun vorið 1963. Bygging Sindrabæjar var mikið þrekvirki á sínum tíma og var byggingartíminn talsverður en að byggingunni komu nokkur félagasamtök ásamt sveitasjóði. Tilkoma Sindrabæjar gjörbreytti allri félagsaðstöðu á Höfn á sínum tíma. 

Fyrr á þessu ári fór Sindrafólk svo aftur að leita sér að varanlega félagsaðstöðu og varð Landsbankahúsið fyrir valinu. Það hús er í stærri kantinum og hefur félagið ekki þörf á öllu rýminu eins og staðan er núna. Hugmyndin er að leigja út eldri hluta byggingarinnar til að standa undir kostnaði við rekstur hússins. Í bankarýminu verður salur sem hægt verður að nota til hverskonar  félagsstarfa. Í kjallaranum verður síðan komið upp aðstöðu fyrir Sindra og þau aðildarfélög USÚ sem vantar rými ef þau óska.

Húsið

Sindri hefur þegar fengið eldri bygginguna til yfirráða en fær ekki bankaaðstöðuna fyrr en eftir mitt næsta ár. Þá verður öllum Hornfirðingum boðið í kaffi um leið og húsið verður formlega vígt og því vonandi gefið nafn. Þá verða frekari hugmyndir um starfsemi í því líka væntanlega kynntar. Við hjá Sindra gerum okkur grein fyrir því að það er ekki steinsteypan sem gerir félagið að félagi, það erum við og þið og það líf sem við sköpum í kringum okkur. Maður er manns gaman eins og máltækið segir og samfélagið okkar verður aldrei annað og meira en það sem við sköpum. 

Á þessum tímamótum vil ég fyrir hönd aðalstjórnar UMF. Sindra þakka sveitarfélaginu stuðninginn. Án stuðnings þess hefði þetta ekki verið gerlegt. Hið sama má segja um stuðning annarra velunnara ungmennafélagsins. Það er ómetanlegt fyrir félag eins og UMF. Sindra sem nær eingöngu byggir á sjálfboðavinnu að eiga að einstaklinga hér í samfélaginu sem eru ávallt tilbúnir að leggja félaginu lið.

Myndin er tekin við undirritun kaupsamnings.

Fyrir hönd UMF. Sindra

Ásgrímur Ingólfsson