Ábendingar íbúa um viðfangsefni og áherslur í umhverfis- og skipulagsmálum

Endurskoðun aðalskipulags Hornafjarðar

19.7.2023

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar birti í maí sl. verkefnislýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulags þar sem farið er yfir helstu viðfangsefni og vinnuferli við endurskoðunina.

Í kjölfarið var leitað til íbúa eftir skoðunum þeirra og sjónarmiðum um umhverfis- og skipulagsmál í sveitarfélaginu, til að hafa til hliðsjónar við endurskoðunina. 

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar birti í maí sl. verkefnislýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulags þar sem farið er yfir helstu viðfangsefni og vinnuferli við endurskoðunina.

Í kjölfarið var leitað til íbúa eftir skoðunum þeirra og sjónarmiðum um umhverfis- og skipulagsmál í sveitarfélaginu, til að hafa til hliðsjónar við endurskoðunina. Alls bárust 82 svör sem samsvara um 4% fullorðinna íbúa.

Svörin sem bárust innihéldu fjölmargar ábendingar sem munu gagnast vel við mótun stefnu og skipulags í þéttbýli og dreifbýli. Ábendingarnar snertu á ýmsu, svo sem fráveitu og úrgangsmálum, útivistar- og leiksvæðum og viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Margar þeirra voru vel útfærðar og greinilegt er að íbúum er umhugað um umhverfi sitt og láta sig skipulagsmál varða. Að neðan er drepið á því helsta sem kom fram í könnuninni.

Lífsgæði í sveitarfélaginu

Íbúar telja búsetu í sveitarfélaginu bjóða upp á fjölbreytt lífsgæði. Flestir nefndu nálægð við stórbrotna náttúru og víðáttu og mikla útivistarmöguleika, barn- og fjölskylduvænt umhverfi, stuttar vegalengdir í þéttbýli og þjónustu í göngufæri, húsnæði á viðráðanlegu verði, frelsi, kyrrð, rólegheit og samheldið samfélag. Þetta eru væntanlega þeir kostir sem íbúar vilja halda í og styrkja enn frekar.

Áherslur við uppbyggingu svæða

Margar góðar ábendingar sneru að uppbyggingu svæða. Mikill áhugi er fyrir fjölgun leiksvæða og framboði á grænum svæðum til útivistar og útiveru. Skiptar skoðanir eru á þéttleika byggðar; þannig bentu sumir á að ekki mætti þétta byggð um of á meðan aðrir sögðu að ekki mætti dreifa byggð of mikið. Þá var bent á að byggð ætti að falla vel að umhverfi og huga ætti að heildarmynd byggðarinnar. Íbúum er umhugað um umferðaröryggi, sérstaklega við þjóðveginn og við gönguleiðir barna að skóla- og íþróttasvæðum. Kallað var eftir samfelldu göngu- og hjólastígakerfi og óskað eftir að skipulag stýri bílaumferð og takmarki hraða hennar og hringakstur.

Ferðamennska og áhrif loftslagsbreytinga

Nokkrar spurningar sneru að áskorunum og tækifærum sem fylgja vaxandi ferðamannastraumi. Íbúum var tíðrætt um umferðaröryggi, álag á innviði og þjónustu og álag á náttúru vinsælla svæða. Þá var spurt út í áhrif loftslagsbreytinga í sveitarfélaginu, svo sem hopun jökla og landris, og hvernig þurfi að bregðast við þeim. Meðal þess sem var nefnt var þörf fyrir vöktun og aðlögun að öfgum í veðurfari, breytingum á rennsli vatnsfalla, skriðum, grjóthruni og flóðum. Íbúum var tíðrætt um breytingu á innsiglingu og þörf fyrir viðvarandi dýpkun hafnarinnar. Einnig var bent á áhrif sem loftslagsbreytingar kunna að hafa á hagkerfið til dæmis vegna áhrifa á ferðamennsku, sjávarútveg og landbúnað. Til lengri tíma litið kunni loftslagsbreytingar að hafa áhrif á ferðamennsku þar sem jökullinn hefur mikið aðdráttarafl. Með hlýnandi loftslagi gætu ræktunarskilyrði breyst sem gæti eflt landbúnað og tækifæri á nýjum greinum svo sem kornrækt skapast.

Næstu skref í skipulagsvinnunni

Nú síðsumars og í haust verða dregnar saman forsendur og mótuð markmið fyrir öll helstu viðfangsefni aðalskipulagsins, m.a. með hliðsjón af svörum við framangreindri íbúakönnun og yfirstandandi könnun meðal landeigenda og ábúenda. Fréttir af framgangi skipulagsvinnunar og auglýsingar um kynningu og samráð verða birtar á vefnum hornafjordur.is/adalskipulag

Bæjarstjórn þakkar þeim sem gáfu sér tíma til að svara könnuninni og hvetur íbúa til að fylgjast áfram með endurskoðun aðalskipulagsins.

 Viðfagnsefni aðalskipulags 
 Vistkerfi og náttúruauðlindir Byggð og samfélag Hagsæld og framþróun
  • Loftslag og náttúruvá
  • Landslag og lífríki
  • Vatn og strandsjór
  • Land og jarðvegur
  • Orkulindir og úrgangur
  • Byggðarmynstur og bæjarmynd
  • Samgöngur og fjarskipti
  • Orkuframleiðsla og
    - flutningur
  • Þjónusta og verslun
  • Útivist og afþreying
  • Menning og listir
  • Öryggi og varnir
  • Ferðaþjónusta
  • Landbúnaður
  • Sjávarútvegur og iðnaður
  • Aðrar atvinnugreinar