Afhending nýrrar slökkvibifreiðar í Öræfum
Næstkomandi laugardag fer fram formleg afhending á nýrri slökkvibifreið í Björgunarmiðstöð Káraskjóli í Öræfum. Athöfnin hefst kl. 14:00.
Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ólafs Gíslasonar & Co hf., mun afhenda Sigurjóni Andréssyni bæjarstjóra bifreiðina, sem er af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter 519 4x4 með ályfirbyggingu og 1.000 lítra vatnstanki.
Bifreiðin er sjálfskipt með 9 gírum og hefur leyfilega hámarksþyngd 5.500 kg. Hún rúmar sex slökkviliðsmenn í mannskapshúsi. Bifreiðin er fullbúin með merkingum, forgangsljósum og gulum aðvörunarljósum einnig.
Dælubúnaðurinn, Firecafs F-220, er sjálfstæður með bensínvél af gerðinni B&S Vanguard og loftþjöppu. Hann hefur afkastagetu upp á 780 l/mín við 8 bör, með hámarksþrýstingi 10 bör. Froðublandari er með stiglausri stillingu 0,3–2,5%, og blöndunarhlutfallið tryggir afkastagetu upp á 1.600 l/mín við 8 bör þegar froðublöndu er dælt.
Vatnstankurinn er 1.000 lítra, úr tæringarþolnum efnum, með vatnshæðarmæli, og froðutankurinn 100 lítra með froðumagnmæli. Í yfirbyggingunni er einnig miðstöð sem staðsett er í dælurými.
Annar búnaður felur í sér rafdrifið spil með toggetu upp á tæp sex tonn, bæði með snúrutengdri og þráðlausri fjarstýringu, hlífðargrind með LED ljóskösturum, loftdrifið ljósamastur með tveimur 180W flóðljósum og tengingu fyrir húsarafmagn 230V/50Hz.
Slökkvilið leggur áherslu á að bæta viðbúnað sinn í ljósi aukins ferðamannastraums og alvarlegra slysa í umdæminu. Með þessari nýju bifreið og annarri tækjabifreið í flotanum getur liðið brugðist enn betur við þeim aðstæðum sem kunna að skapast á þjóðvegum svæðisins.
Að lokum eru allir hjartanlega velkomnir til að taka þátt í afhendingarathöfninni í Káraskjóli. Slökkviliðið á von á góðum gesti – Björni brunabirni – þó svo að það hafi verið mikið að gera hjá honum undafarið.
Borgþór Freysteinsson
Slökkviliðsstjóri