Allir á Hótel Höfn um helgina

8.11.2016

 Á laugardaginn kemur verður síðasta sýningin á “Þannig týnist tíminn” á Hótel Höfn.  Sýningar hafa gengið vel, verið vel sóttar og gestir almennt ánægðir.

Mikið stuð hefur einnig verið á dansleikjum eftir sýningar og mæting á þá verið með eindæmum góð og greinilegt að Hornfirðingar hafa verið orðnir ball-þyrstir. 

Eftir lokasýninguna á laugardaginn dregur heldur betur til tíðinda í ballmálum því þá munu tvær hljómsveitir leika fyrir dansi.  Hin goðsagnakennda Hljómsveit Hauks mun hefja dansleikinn strax að sýningu lokinni eða um miðnætti og mun hljómsveitin leika til 1:30.  Þá tekur hljómsveitin KUSK við og klárar ballið.  Hljómsveit Hauks hefur ekki spilað á Hótelinu í 13 ár og Hljómsveitin KUSK er að ljúka sínu 15 ári í dansleikjahaldið þar.

Í Hljómsveit Hauks eru auk Hauks Þorvaldssonar þeir Jóhann Morávek, Bragi Karlsson, Gunnlaugur Sigurðsson og Bjartur Logi Finnsson.  Hljómsveitin KUSK er skipuð þeim Heiðari Sigurðssyni, Júlíusi Sigfússyni, Bjartmari Ágústssyni, Eymundi Ragnarssyni og Svöfu Mjöll Jónasar sem sungið hefur með hljómsveitinni á Hótelböllunum þetta haustið.

Þessi stórdansleikur er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara því það bendir allt til að hann verði lengi í minnum hafður.  Nokkuð öruggar heimildir eru fyrir því að Gvendur á Eyrinni og Stína Ó-Stína muni verða á staðnum og ef Rabbabara Rúna verður komin af rjúpu þá er eins víst að hún mæti í minkapelsinum.

Ætlar þú ekki örugglega að mæta?