Alþjóða ár jökla á hverfandi hveli
Nemendur í Hofgarði tóku þátt í samkeppni um verk tengd jöklum
Föstudaginn 21. mars var fyrsti alþjóða dagur jökla í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu jöklunum daginn ásamt því að útnefna árið 2025 sem alþjóðaár jökla á hverfandi hveli. Að því tilefni var efnt til samkeppni meðal ungs fólks á aldrinum 10-20 ára.
Nemendur í náttúrufræðitímum í Grunnskólanum Hofgarði í Öræfum létu slag standa og sendu inn verkefni í keppnina. Svo fór að verkefni Alexöndru Lindar í 5.bekk hlaut viðurkenningu og ein af sex verðlaunum sem í boði voru.
Verkefni Alexöndru var á myndbandsformi þar sem hún ræddi við heimamenn í Öræfum um nágranna þeirra - jöklana. Hún spurði þá spjörunum úr, ma. hvort þau hafi séð breytingar á jöklunum, hvort þeim þætti þeir fallegir og hvort þau töldu að breyting yrði á Öræfum ef jöklarnir myndu hverfa.
Alexandra fór ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur að taka á móti verðlaunum og viðurkenningu í Veröld - húsi Vigdísar. Myndbandið var sýnt á sýningu á vegum Náttúruminjastofnunar Íslands í Perlunni, en sýningin opnaði þann 6. apríl og var partur af Barnamenningarhátíð.