Appelsínugula Trektin

24.5.2018

Bæjarráð sveitarfélagsins samþykkti í apríl að kaupa olíutrektar fyrir heimilin í sveitarfélaginu. Hlutverk olíutrektarinnar er að safna allri olíu sem fellur til á heimilinu til endurvinnslu. 

Mikilvægt er að olíu og fituríkur úrgangur fari ekki í fráveitukerfið, fita stíflar leiðslur og hefur slæm áhrif á dælur og annan slíkan búnað í fráveitukerfinu. Söfnunarstöð sveitarfélagsins við Sæbraut tekur við olíunni.

Hægt er að nálgast olíutrektina í afgreiðslu Ráðhúss eða panta hana í síma 470 8000. Umhverfissamtök Austur- Skaftafellssýslu munu einnig standa fyrir kynningu á trektinni í Miðbæ. 


Trektin er skrúfuð á tóma plastflösku. Tappinn af plastflöskunni er geymdur í lokinu á trektinni. Ekki hella heitri olíu, fitu eða feiti í flöskuna. Þegar flaskan er orðin full er appelsínugula trektin tekin af og tappinn settur á flöskuna og henni skilað á söfnunarstöðina.