Ársreikningur 2024 - Niðurstaða jákvæð um 756 milljónir króna
Engin lán tekin á árinu en fjárfest í innviðum fyrir 850 milljónir króna
Ársreikningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir árið 2024 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn föstudaginn 2. maí sl. Niðurstaðan er jákvæð og endurspeglar kraftinn samfélaginu og atvinnulífi hér í Hornafirði. Reksturinn gekk vel á liðnu ári og sýnir uppgjörið að við erum að nýta fjármuni í þágu samfélagsins af ábyrgð og skynsemi.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 756 m.kr., og rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 473 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 7.087 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam um 5.931 m.kr.
Mynd 1: Jákvæð afkoma hefur verið af rekstri sveitarfélagsins allt kjörtímabilið og engin lán voru tekin á árunum 2022 til 2024.
Tekjuaukning langt umfram aukningu útgjalda
Rekstrartekjur sveitarfélagsins 2024 námu 4.534 milljónum króna fyrir samstæðu (A og B hluta), og þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.981 milljónum króna. Það er ánægjulegt að sjá að rekstrarútgjöld jukust um 2,8% á meðan tekjuaukningin var 8,7%. Eiginfjárhlutfall samstæðu er 75,3% fyrir árið 2024.
Mynd 2: Það er ánægjulegt að sjá að
tekjuaukning er áfram mun meiri en aukning útgjalda vegna rekstrar.
Jákvæð afkoma og engin lán
Í fjárhagsáætlun ársins 2024 var áætlað að taka 450 milljónir króna að láni – en ekki var gengið á þá heimild. Að skila 756 milljónum króna í jákvæða niðurstöðu, ásamt því að fjárfesta í innviðum fyrir rúmlega 800 milljónir króna án þess að taka krónu að láni, er til marks sterka stöðu sveitarfélagsins.
Mynd 3: Skuldir
á árinu 2024 lækka mun meira en afborgun langtímalána segir til um. Það er
vegna þess að sveitarfélagið seldi 18 íbúðir sem það átti inn í Leigufélagið
Bríet og yfirtekur Bríet lánin sem voru á eignunum ásamt því að sveitarfélagið
fær eignahlut í leigufélaginu.
Stöðugt meira veltufé frá rekstri
Veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum á síðasta ári. Þessi lykiltala segir okkur til um getu sveitarfélagsins til að fjárfesta og standa undir afborgunum án þess að þurfa að taka lán. Á síðasta ári var veltufé frá rekstri 895 milljónir króna og sem hlutfall af rekstrartekjum 19,7%. Til samanburðar var veltufjárhlutfall 19.6% árið 2023, 17.9% árið 2022 og 13.3% árið 2021.
Mynd 4: Veltufé frá rekstri er lykiltala sem segir okkur hvaða fjármunir eru til staðar til að greiða af lánum og til fjárfestingar eftir að reikningar vegna hins daglega reksturs hafa verið greiddir.
Fjárfest í innviðum fyrir 850 milljónir króna
Fjárfesting í innviðum 2024 nam 850 milljónum króna. Það er nokkuð minni fjárfesting en ráð var fyrir gert og skýrist að stórum hluta af því, að gert var ráð fyrir meiri fjárfestingu vegna íþróttahúss á árinu 2024. Þá frestuðum við framkvæmdum og endurbótum á ráðhúsi, ásamt því að innviðauppbygging við nýtt Hagahverfi hefur dregist – en fyrstu lóðum verður úthlutað í sumar.
Mynd 5. *
Skýring á niðurstöðu í B hluta.
Fjárfesting
í fráveitu
árið 2023
var 99.9
m.kr. og rúmar 30 m.kr
árið 2024
- á
móti fengum við fráveitustyrk sem
kemur inn árið 2024,
en er í raun vegna ársins 2023.
Það skekkir
myndina aðeins þar sem það lítur
fyrir út að fjárfesting í B hluta sé mínus tala upp á 8,2 m.kr.
Lægri skuldir
Skuldir sveitarfélagsins héldu áfram að lækka á árinu 2024. Skuldahlutfall samstæðu er 51% en hafði verið áætlað 58% í fjárhagsáætlun ársins. Skuldaviðmið samstæðu er 25% en það hafði verið áætlað 39% 2024. Svo lág skuldaviðmið eru langt undir meðaltals hlutföllum sveitarfélaga hér á landi og sýna öfundsverða stöðu.
Mynd 6: Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og er langt undir meðaltali sveitarfélaga hér á landi sem var 111,8% árið 2023. Í þessu sambandi má líka nefna að hámarks skuldaviðmið er skilgreint í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og er 150%.
Ýmsir punktar um stöðuna hjá okkur:
- Framkvæmdir við stækkun leikskólans Sjónarhóls ganga vel verður ný viðbygging (tvær deildir) tekin í notkun innan skamms
- Breytingar á Sindrabæ ganga vel og í lok sumars tökum við húsið aftur í notkun eftir stórglæsilegar endurbætur
- Nýtt íþróttahús í er burðarliðnum – jarðtæknirannsóknum er að ljúka og mun hönnun hússins hefjast á næstu vikum
- Við höldum ótrauð áfram með fráveituframkvæmdir og næst er það áfangi 4b sem tengir innbæinn á tengivirkið í Óslandi um Sandbakka og Ránarslóð
- Fyrstu lóðum í nýju og fallegu Hagahverfi verður úthlutað nú i byrjun sumars
- Nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun á árinu og þá verður hægt að hefja framkvæmdir og endurbætur á við eldri hlutanum
- Við erum að efla öryggisviðbragð í Öræfum með kaupum nýjum og glæsilegum slökkvibíl sem er nú á leiðinni til okkar
- Starf íbúaráða sveitarfélagsins er stöðugt að verða markvissara og það skiptir okkur miklu mál að efla það starf enn frekar
- Dýpkun og rannsóknir á Grynnslunum gengið vel það sem af er árið og lofa góðu upp á framhaldið
- Ungmennafélagið Vísir fékk nýlega styrk frá sveitarfélaginu til þess að fjármagna nýjan fjölnota íþróttavöll við Hrollaugsstaði sem mun gjörbreyta aðstöðu til íþróttaiðkunar í Suðursveit
- Við höfum stóreflt Menningarmiðstöð Hornafjarðar með ráðningu tveggja nýrra starfsmanna sem munu hafa aðsetur í Gömlubúð og við ætlum að hleypa nýju lífi í húsið
- Fyrsta skóflustunga að nýrri verslunarmiðstöð verður tekin innan skamms
- Nýr miðbær rís á Höfn og undirbúningur í fullum gangi
- Nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót verður opnaður í lok árs og vinnu við að fá hringtorg á veginn þar sem hann tengir Nes og þéttbýlið á Höfn miðar vel
- Gríðarleg fjárfesting tengd sjávarútvegi er í Hornafirði – en við höfum þó áhyggjur af boðaðri hækkun veiðigjalda og mögulegum áhrifum
- Mikil uppbygging tengd ferðaþjónustu er í sveitarfélaginu og metfjöldi ferðamanna sótti okkur heim á árinu 2024
- Uppbygging baðlóns, gestastofu og hótels í Hoffelli miðar vel og nú hefur aukinn kraftur verið settur í verkefnið hjá framkvæmdaaðilum
Staðan er góð og framtíðin björt
Ágæti lesandi – árið 2024 var okkur í Hornafirði hagfellt. Okkur fjölgar samhliða aukinni verðmætasköpun en í dag eru íbúar orðnir 2.757 talsins. Við erum stöðugt að efla okkar innviði en fjölgun íbúa verður áfram að vera á forsendum kröftugs atvinnulífs.
Við munum áfram reyna eftir fremsta megni að stilla álögum sveitarfélagsins í hóf og sýna ráðdeild í rekstri. Með ábyrgri fjármálastjórn og skýrri framtíðarsýn eru sannarlega tækifæri til sóknar fyrir okkur og framtíðin er björt.
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri