Auglýst eftir tillögum um nýtingu á Stekkakletti

3.10.2018

Sveitarfélagið Hornafjörður auglýsir eftir tillögum um nýtingu á Stekkakletti, í landi Hafnarness, en húsið var byggt í upphafi sem fjarskiptastöð.

Húsið er skráð þremur matshlutum sem eru samtals 155,9 m2.  Lóðarstærðin er 11.550 m2 samkvæmt teikningu.

Með auglýsingu þessari vill sveitarfélagið lýsa eftir aðilum sem áhuga kunna að hafa á uppbyggingu á lóðinni og uppfylla þá skilmála sem að neðan greinir. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

  • hvernig starfsemi viðkomandi sér fyrir sér á lóðinni,
  • hvernig viðkomandi hyggst nýta lóð og hús,
  • hvernig tillagan hefur jákvæð áhrif á samfélag, atvinnu og efnahag í sveitarfélaginu,
  • hvernig viðkomandi sér fyrir sér skipulag, hönnun og uppbyggingu á lóðinni,
  • hvað viðkomandi aðili vill greiða háa leigu fyrir notkun á lóð og húsi og til hversu langs tíma. Sveitarfélagið mun í ljósi samkeppnissjónarmiða leitast við að fá markaðsverð fyrir leigu á lóðinni og að leigutími sé ekki til lengri tíma en til 7 ára,
  • reynsla og þekking viðkomandi á þeirri starfsemi sem tilgreind er í tillögu,
  • litið verður til fjárhagslegrar getu til að koma hugmyndinni í verk og fylgja henni eftir,
  • hversu ný og sérstæð tillagan er.

Samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030 er Stekkaklettur á svæði sem skilgreint er sem samfélagsþjónusta. Ekkert deiliskipulag er til fyrir lóðina. Sveitarfélagið er reiðubúið að skoða breytingar á aðalskipulaginu til að skapa svigrúm fyrir breytta nýtingu lóðar og húsa og koma að nýju deiliskipulagi á grundvelli þeirrar tillögu sem verður fyrir valinu.

Upplýsingar veitir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri. Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið inn tillögu að nýtingu á Stekkakletti til bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, 780 Höfn í Hornafirði, eða á netfangið afgreidsla@hornafjordur.is eigi síðar en 30. október nk.

Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar.