Bæjarráð furðar sig á ákvörðun samgönguráðherra

7.3.2017

Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar furðar sig á þeirri ákvörðun samgönguráðherra og ríkisstjórnar Íslands að fara ekki eftir samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti samhljóða í október 2016.

Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar, frá 10. janúar 2017 segir:

"Álag á samgöngukerfið hefur vaxið mikið undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Í því ljósi verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum..."

Bæjarráð Hornafjarðar getur ekki með nokkru móti séð hvernig þessi orð í stjórnarsáttmálanum ríma við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ætla sér að setja 0 krónur í nýjan veg um Hornafjörð.
Fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018 gerir ráð fyrir því að 1000 milljónir verði settar í framkvæmdir árið 2017 við styttingu hringvegarins um Hornafjörð, um 12 km. Framkvæmdin mun leysa af hólmi þrjár einbreiðar brýr sem komnar eru til ára sinna. Undirbúningur þessa verkefnis hefur átt sér langan og kostnaðarsaman aðdraganda og sveitarfélagið hefur þegar afgreitt framkvæmdarleyfi Vegagerðarinnar vegna framkvæmdarinnar.
Það er mat bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar að ráðherra og ríkisstjórn fari fram í fullkomnu heimildarleysi með breytingu á forgangsröðun samgönguáætlunar án þinglegrar meðferðar. Við þetta munu Hornfirðingar ekki una.