Bara piss, kúk og klósettpappír

22.11.2022

Skoðunarferð í hreinsivirki í tilefni alþjóðlega klósettdagsins

Í tilefni alþjóðlega klósettdagsins býður sveitarfélagið íbúum að koma í skoðunarferð í hreinsivirki sveitarfélagsins, á Höfn og í Nesjum þann 22. nóvember. Opið verður í Nesjum á milli klukkan 16:00 – 17:00 og á Höfn á milli klukkan 16:00 – 18:00. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs og Áhaldahúss verður á staðnum til leiðsagnar og viðræðna um fráveituframkvæmdir sveitarfélagsins.

Á ári hverju má ætla að tæplega 200 tonn af allskonar óæskilegum úrgangi komi í fráveitur um allt land. Það þýðir að um hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á landinu.

 

Auk þess að skaða umhverfið og íþyngja rekstur fráveitukerfa, getur kostnaður sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar rusls í fráveitum hlaupið á tugum milljóna króna á ári.

 

Stærsta vandamálið eru blautþurrkur og/eða sótthreinsiklútar, auk smokka, tannþráðar og eyrnapinna. Það er því mikilvægt að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það hendir rusli í klósettið, þangað á bara að fara piss, kúkur og klósettpappír. Besta lausnin er hreinlega að nota sem minnst af einnota hreinlætisvörum.

www.klosettvinir.is