Barna- og ungmennaþing 2025 – Rödd barna og ungmenna mótar framtíðina

13.11.2025

Þriðjudaginn 18. nóvember fer fram Barna- og ungmennaþing Sveitarfélagsins Hornafjarðar, þar sem börn og ungmenni í leik- og grunnskólum og í FAS fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast um málefni sem skipta þau máli.

Markmið þingsins er að safna hugmyndum og sjónarmiðum barna og ungmenna um lífið í sveitarfélaginu. Um skólastarf, öryggi, íþróttir, félagslíf og samfélagið í heild. Þessi vinna er mikilvægur hluti af því að Hornafjörður er barnvænt sveitarfélag, sem þýðir að sveitarfélagið vinnur eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og leggur áherslu á að tryggja öllum börnum rétt til þátttöku og áheyrnar.

Ungmennaráð Hornafjarðar hefur undirbúið umræðuefni þingsins og mun leiða hópa í vinnu með nemendum. Að loknu þinginu verða niðurstöðurnar teknar saman og kynntar fimmtudaginn 20. nóvember, á degi Barnasáttmálans, þar sem foreldrar, kennarar og sveitarstjórnarfólk eru boðin velkomin til að hlusta á raddir barna.

Niðurstöður Barnaþings verða síðan nýttar í vinnu sveitarfélagsins við nýja aðgerðaráætlun Barnvæns sveitarfélags, sem mótar framtíð þjónustu og ákvarðana í málefnum barna og ungmenna.

Barnaþingið er lifandi dæmi um lýðræði í framkvæmd, þar sem ungt fólk tekur þátt í að skapa samfélag þar sem öllum líður vel og allir fá tækifæri til að blómstra.

Viðburður í Íþróttahúsinu kl 09:50
Viðburður í Nýheimum sama dag kl 12:45