Barnastarf Menningarmiðstöðvarinnar
Í fjölda ára hefur Menningarmiðstöð Hornafjarðar staðið fyrir barnastarfi á sumrin og að sjálfsögðu var þar engin breyting á í sumar. Farnar voru 9 ferðir í júní og júlí og fór fjöldi barna framúr okkar björtustu vonum þar sem oft skráðu sig yfir 30 í börn í ferðirnar.
Þátttakendur í ferðunum voru börn sem lokið hafa 1. bekk og uppúr en yngri börn voru boðin velkomin í fylgd með fullorðnum. Starfsmenn Menningarmiðstöðvarinnar fóru alltaf með í ferðirnar og þegar fjöldinn var sem mestur fengum við aðstoð frá Vinnuskólanum.
Í ár ferðuðumst við um víðan völl, bæði innanbæjar og utan og fengum til samstarfs við okkur fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem öll höfðu það að markmiði að gera sumarið ógleymanlegt fyrir börnin. Feðgarnir hjá Vatnajökull Travel sáu til þess að við gátum farið í nokkrar rútuferðir, t.d. út á Horn til hans Ómars þar sem víkingabærinn var skoðaður ásamt því að hlaupið var skólaust um fjörurnar í sól og blíðu. Einnig var farið í óvissuferð inn í Haukafell þar börnin fengu að skoða bæði gamla og nýja bæjarstæðið og fræddust um sögu Haukafells bæjarins.
Þá var Hanna Dís Whitehead með fánasmiðju í Gömlubúð á 17. júní, Sandra sá um Humarhátíðarföndur, Bjössi Arnar fór með stóran hóp barna í fuglaskoðun út í Ósland, Þröstur og Vignir sigldu með börnin á Lóðsinum út í Mikley og Hulda Laxdal gerði skemmtilegar jógaæfingar með hópnum úti í blíðskapar veðri.
Síðast en ekki síst voru bönin með þeim allra fyrstu sem fengu að baða sig í nýju pottunum í Hoffelli.
Menningarmiðstöðin þakkar öllum börnum og foreldrum sem tóku þátt í vettvangsferðum sumarsins kærlega fyrir samveruna. Þið stóðuð ykkur vel, voru hugrökk og forvitin og ekki síst prúð í framkomu.
Við hlökkum til að endurtaka leikinn með ykkur næsta sumar.
Fyrir hönd
Menningarmiðstöðvarinnar
Sandra Björg