Blámi sýning eftir Þorvarð Árnason

10.2.2023

Sýningin Blámi verður opnuð laugardaginn 18. febrúar kl. 13:00 í Svavarsafni.

Að opnun lokinni verður efnt til málþings í Nýheimum um sýninguna, kl. 16:00-17:30. Sérstakur gestur þingsins er Steinunn Sigurðardóttir, skáld.

Viðfangsefnið sýningarinnar eru jöklar og er hún kennd við (jökul)bláma – þennan sérstaka einkennislit skriðjökla að vetrarlagi. Höfundur hennar, Þorvarður Árnason, hefur um árabil ferðast um jökulheima Hornafjarðar, dvalið þar, notið ægi- og ævintýrafegurðar og leitast við að fanga litadýrð jökla og mikilfengleika þeirra með ljósmynda- og kvikmyndavélum.

Lýsa mætti sýningunni sem hreyfimynd sem opnast og breiðir úr sér í þrívíðu rými. Verkið byggir á hrynjandi á þremur plönum: samverkan mynda og rýmis, innri kyrrðar eða hreyfingar í myndunum sjálfum og svo framvindu og samspili efniviðarins í einstökum myndbrotum, á mismunandi sýningarflötum.

Sýningin hefur einnig ákveðnar fræðilegar hliðar; meðal annars hvernig blái liturinn tengist náttúrunni og ástríðu gagnvart henni í menningarsögulegu samhengi, hvernig sýningin tengist miðlun um loftslagsmál almennt, svo og róttæku, framvirku hlutverki safna og sýningarhalds í baráttunni við hamfararhlýnun.

Þorvarður Árnason nam kvikmyndagerð í Montréal í Kanada og hefur fengist við kvikmyndagerð og ljósmyndun um fjörutíu ára skeið, samhliða öðrum störfum. Hann hefur verið forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði frá árinu 2006 og gegnir jafnframt stöðu rannsóknadósents í umhverfishugvísindum. Loftslagsmál hafa verið vaxandi þáttur í starfi Þorvarðar á undanförnum árum, einkum þá söfnun og miðlun upplýsinga um bráðnun hornfirska jökla. Þar hefur Þorvarður aðallega notað sjónrænar aðferðir sem byggja á þekkingu hans á landslagsljósmyndun og kvikmyndagerð. Þorvarður hlaut Menningarverðlaun Hornafjarðar árið 2018 fyrir ljósmyndir sínar af Hornafirði.

Styrktaraðilar: SASS, Háskóli Íslands, Loftslagssjóður, Landsbankinn og Origo

Sýningarstjóri / Curator: Þóranna Dögg Björnsdóttir

Höfundur / Creator: Þorvarður Árnason

Hljóðinnsetning / Sound installation: Þóranna Dögg Björnsdóttir