Elísa Sóley ráðin félagsmálastjóri

17.8.2018

Í vor var auglýsti Sveitarfélagið Hornafjörður eftir umsóknum í starf félagsmálastjóra. Eftir ráðningaferlið var það niðurstaða bæjarráðs að  Elísa Sóley Magnúsdóttir yrði fyrir valinu. 

Elísa Sóley er fædd árið 1979 og á tvo drengi og er búsett á Höfn. Elísa Sóley er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með héraðsdómslögmannsréttindi. Elísa er úr Reykjavík og starfaði um tíma í Velferðarráðuneytinu og hefur góða reynslu og þekkingu á málaflokknum. 

Félagsmálastjóri ber ábyrgð á framkvæmd almennrar og sértækrar félagsþjónustu í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Starfið felur m.a. í sér vinnu við stefnumótun og áætlanir í þeim málaflokkum, sem undir hann heyra. 

Félagsmálastjóri hefur yfirumsjón með félagslegri ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, málefnum barna og ungmenna ásamt málefnum fatlaðs fólks og heimaþjónustu auk umsjónar með húsnæðismálum. Félagsmálastjóri vinnur að auki með viðeigandi aðilum að málefnum aldraðra jafnframt því að taka þátt í vinnuhópum, ráðum, teymisvinnu ásamt öðrum fjölbreyttum faglegum verkefnum. Félagsmálastjóri er starfsmaður félagsmálanefndar og öldungaráðs og undirbýr fundi nefndarinnar og boðar þá.