Fjölþjóðleg sögustund á Bókasafninu

27.3.2018

Á laugardaginn síðasta, var boðið upp á nýjung í sögustund á Bókasafninu. En í fyrsta skipti vorum við að prófa að lesa eina bók á fleiri tungumálum en einu.

Við byrjuðum á að lesa bókina Tumi bakar, á íslensku og pólsku, fyrst fræddumst við um það að á Hornafirði býr fjölbreyttur hópur af fólki, og samtals eru hér íbúar með um 30 þjóðerni önnur en íslensk. Við skoðuðum hvar Ísland og Pólland eru á landakorti, og hvernig væri hægt að komast þangað.

Lesturinn gafst mjög vel, og voru börnin fljót að grípa orð á pólskunni, t.d. lærðum við að monki þýðir hveiti, og fannst krökkunum það hljóma eins og „monkey“ eða api á ensku, og egg eru jaja en það hljómar alveg eins og orðið jæja á íslensku.

Seinna var svo lesin bókin Við fórum öll saman í safaríferð. En það er vísubók, þar sem sagt er frá safaríferð í Tansaníu, þar lærðum við að telja frá einum upp í 10 á svahílí, og lærðum einnig hvað fáein dýr heita á því tungumáli.

Allt gekk þetta mjög vel og var skemmtileg reynsla og skemmtu foreldrar og börn sér vel að fræðast um fjarlæg lönd og heyra tungumálin. Vonandi getum við gert þetta aftur og hver veit nema við fáum að heyra fleiri tungumál í næstu sögustundum, en stefnt er á að hafa tvær sögustundir í viðbót fyrir sumarfrí. Þær verða haldnar þann 14. og 28. apríl.

Síðan langar okkur að benda á að Bókasafnið okkar hefur fengið erlendar barnabækur til útlána. Bækurnar eru á pólsku, serbnesku og króatísku.

Einnig er leitarvefur bókasafna leitir.is orðinn aðgengilegur á íslensku, ensku og pólsku. En þar er að finna hvaða bækur eru til á bókasafninu okkar og hvernig má nálgast tímarit og greinar, á söfnum eða á rafrænu formi.


-Starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar