• Slide2-Copy

Framkvæmdir á íþróttasvæði

– horfum til framtíðar!

10.4.2025

Í málefnasamningi núverandi meirihluta í bæjarstjórn sveitarfélagsins er markmið um að hefja undirbúning á byggingu nýs íþróttahúss hér á Höfn. Stýrihópur um byggingu nýs íþróttahúss hefur verið að störfum síðasta árið og langar mig að fara yfir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið, greina frá því hvar það er statt í dag - birta myndir með skýringum, og svo ítarefni um verkefnið neðst í greininni.

Stýrihópur um byggingu nýs íþróttahúss

Stýrihópurinn hefur hópurinn átt víðtækt samráð í undirbúningi og átt samtal við ýmsa hagsmunaaðila. Búið er að hitta stjórnir allra deilda Sindra sem nýta aðstöðu í íþróttahúsinu og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Hópurinn kallaði til liðs við sig ráðgjafa sem unnu tillögur og kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. 

Óraunhæf kostnaðaráætlun - hvað svo?!

Ráðgjafar sem störfuðu með stýrihópnum unnu með tvær staðsetningar í sinni vinnu skv. beiðni hópsins:

  • Leið A að byggja í samræmi við núverandi skipulag, íþróttahús á æfingavellinum við Víkurbraut
  • Leið C að byggja við núverandi íþróttahús, sunnan við sundlaug inn á miðsvæðið

Unnar voru kostnaðaráætlanir fyrir þessar tillögur. Kostnaðaráætlanir hljóðuðu upp á um 4 milljarða ásamt mikilli óvissu eða um 50% - sem sagt 4 til 6 milljarðar?!

Það er í mínum huga ekki bara óraunhæft, heldur væri það ábyrgðarlaust fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð að ráðast í svo kostnaðarsamt verkefni um byggingu íþróttahúss. Þess vegna óskaði ég eftir því við sérfræðinga á mannvirkjasviði sveitarfélagsins að þeir legðust yfir þau gögn og áætlanir sem komnar væru og legðu faglegt mat á:

  1. Hvor staðsetningin er betri fyrir sveitarfélagið?
  1. Er mögulegt að byggja íþróttahús og leggja gervigras fyrir um 2 milljarða – sem er sú fjárhæð sem er áætluð í verkefnið í langtíma fjárhagsáætlun sveitarfélagsins?
  1. Hvernig getum við séð fyrir okkur mögulega framtíðaruppbyggingu á svæðinu? 

Mat frá mannvirkjasviði

Mannvirkjasvið lagði mat á staðsetningu A og C. Fagleg niðurstaða þeirra er sú að leið A hafi mjög marga kosti yfir leið C.

Í nýrri kostnaðaráætlun frá mannvirkjasviði er gert ráð fyrir kostnaði í áfanga 1 í uppbyggingunni upp á rúmlega 1.9 milljarða. Sá áfangi innifelur íþróttahús, búningsklefa (áfangi 1), stúku við fótboltavöll, lagfæringar og litla viðbyggingu við fimleikahús (núv. íþróttahús) og nýjan gervigrasvöll og tartan. Í tillögum í áfanga 1 er grunnflötur nýbygginga 2500m2 og gert ráð fyrir jöfnun lóðar og bílastæðum NA-megin.

Auðvitað er hér um að ræða fyrstu kostnaðaráætlun og mun hún eflaust taka einhverjum breytingum í hönnunarferlinu. En þetta sýndi okkur þó fram á það að það er raunhæft fyrir okkur að ráðast í verkefnið - því til stuðnings höfum við átt fundi með oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem eru að byggja nýtt íþróttahús að svipaðri stærð fyrir um 900 milljónir króna. 

Nokkur orð um staðsetningu nýs íþróttahúss – af hverju leið A?

Í ágúst 2018 skipaði bæjarráð Hornafjarðar sérstakan stýrihóp til að vinna að heildarskipulagi og uppbyggingu íþrótta- og skólasvæðis í hjarta bæjarins. Eitt meginmarkmið hópsins var að móta skipulags-for-sögn fyrir svæðið sem styrkti tengsl og samlegðaráhrif þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram og er fyrirhuguð.

Vinna hópsins var mikilvægur þáttur í greiningu fyrir gerð deiliskipulags miðsvæðis, skóla- og íþróttasvæðis Hafnar. Meðal annars var skoðuð forgangsröðun uppbyggingar íþróttamannvirkja og mögulegar staðsetningar fyrir nýtt íþróttahús. Niðurstaða hópsins var að leggja til að nýtt íþróttahús yrði byggt á æfingasvæðinu við Víkurbraut (núv. leið A) og að sú uppbygging fengi forgang.

Eins og áður sagði tók svo nýr stýrihópur til starfa snemma á síðasta ári og var sá hópur sérstaklega ætlaður verkefninu um nýtt íþróttahús. Hlutverk hans er að stýra verkefninu og finna hagkvæmustu og bestu lausnir við hönnun, byggingu og rekstur hússins.

Þar sem skiptar skoðanir höfðu komið fram um bestu staðsetninguna og lét hópurinn vinna tillögur að íþróttahúsi á tveimur stöðum til samanburðar, tillaga A og tillaga C. Kostir og gallar beggja staðsetninga hafa verið greindir ítarlega.

Greining sýnir að nýtt íþróttahús í formi viðbyggingar við núverandi hús hefur takmarkaða möguleika til útfærslu og framtíðarþróunar. Þótt slík bygging myndi tengja sundlaug og grunnskóla, myndi hún þrengja verulega að skólalóðinni og taka yfir stóran hluta bæjargarðsins. Viðbyggingin ylli einnig skuggavarpi á svæðinu, skerti útsýni og upplifun til suðurs frá sundlauginni og útilokaði alveg möguleika á stækkun sundlaugar í 50 metra lengd, ef sveitarfélagið vildi ráðast í það í framtíðinni. 

Þrengsli á byggingarsvæði myndu síðan torvelda framkvæmdir og krefjast umfangsmeiri öryggisráðstafana. Þá krefst viðbygging breytinga á núverandi mannvirkjum, þar sem samnýta þyrfti burðarvirki og lagnakerfi, sem eykur enn á flækjustig. Til að tryggja fullnægjandi aðgengi, sérstaklega fyrir aðföng, slökkvilið og sjúkraflutninga, þyrfti frekari breytingar á miðsvæðinu, svo sem nýjan aðkomuveg. Einnig þyrfti að flytja buslu-laugina – sem er ekki lítið verk. Þá þyrfti að færa fótboltavöllinn og hlaupabrautina.

Þessir ókostir fylgja hins vegar ekki þeirri lausn að byggja stakstætt hús á æfingasvæðinu. Þar yrði gott og stutt aðgengi frá bílastæðum. Byggingin myndi veita skjól á svæðinu og sambyggð stúka mun bæta upplifun áhorfenda á íþróttaviðburðum. Talið er að þessi staðsetning tengi Báruna betur við svæðið og bæti götumynd Víkurbrautar. Þá er rétt að benda á að þeir kostir sem oft eru nefndir í tengslum við viðbyggingu, svo sem myndun samfélagslegrar miðju með góðri innanhústengingu milli sundlaugar, grunnskóla og íþróttahúss, eru ekki útilokaðir þótt stakstætt hús verði fyrir valinu. Slíka tengingu og frekari þróun svæðisins væri hægt að útfæra í síðari byggingaráföngum eftir að nýtt íþróttahús á æfingasvæðinu er risið.

Niðurstaða greiningar sérfræðinga á mannvirkjasviði er því sú að staðsetning nýs íþróttahúss á æfingasvæðinu við Víkurbraut sé heppilegasta leiðin til að tryggja nauðsynlega þróunarmöguleika íþróttasvæðisins til lengri tíma litið.

Hér fyrir neðan eru gögn frá mannvirkjasviði sem unnin voru í matinu – texti er við myndirnar til útskýringar.

Myndir og gögn frá mannvirkjasviði með skýringum

Slide1_1744309580582

Yfirlitsmynd af íþróttasvæði. Gullitaðir reitir sýnir viðfangsefnið í fyrsta áfanga framkvæmda sem innifelur; íþróttahús, búningsklefa 1, stúku sunnanvert við íþróttahús, viðbyggingu við fimleikahús (núv. íþróttahús) og gervigrasvöll.

Slide2

Íþróttahús séð úr suðaustri. Mynd sýnir drög að hönnun íþróttahúss, skrifstofur í suðausturenda og móttökusvæði fyrir íþróttahópa og stuðningsaðila (fan zone) með tilheyrandi svölum.

Slide3

Á útisvölum við móttökusvæði (fan zone) fyrir íþróttahópa og stuðningsaðila. Svæðið í umsjón íþróttafélagsins en einnig mögulegt að leigja út.

Slide4

Íþróttahús séð úr austri. Mynd sýnir inngang í íþróttahús frá bílastæðum í við norðausturenda. Alls verða um fjórir inngangar inn í íþróttahúsið frá jarðhæð, aðrir inngangar í norðvesturenda, og sunnan megin frá fótboltavellinum.

Slide5Nýtt íþróttahús – horft frá norðaustri.

Slide6

Horft til norðvesturs af íþróttavelli, íþróttahús og stúka á hægri hönd og í fjarska sjást drög að útfærslu á svokallaðri torgmiðju (samfélagsmiðju) og fyrirhugaðri viðbyggingu við skóla (annar framkvæmda áfangi – þaragreining fyrir grunnskólann hefur ekki verið unnin en þetta sýnir möguleikana eins og óskað var eftir að unnið væri af mannvirkjasviði).

Slide1_1744309580582Framtíðarsýn fyrir svæðið: Mynd er Yfirlitsmynd af helstu gönguásum (gul svæði) um íþróttasvæðið, þeir gegna mikilvægu hlutverki fyrir staðsetningarval. Framtíðarsýnin fyrir svæðið byggir á því að breiðir gönguásar (ca. 6,0m) sem mynda kross við torgmiðju tengja núverandi byggingar við fyrirhugaðar byggingar. Rúmgóður gönguás tengir þannig núverandi sundlaug við fyrirhugað íþróttahús með beinum hætti í vestur-austur gönguás, sem er svo þveraður með norður-suður gönguásum, einnig við sundlaug og fyrirhugaða torgmiðju. Útisvæði og torgmiðja snúa í suður og móta skjólgóða umgjörð sólar-megin í lífinu, sunnan við fyrirhugaða viðbyggingu skóla. Tekið skal fram og ítrekað að þetta eru drög úr hugmyndavinnu Mannvirkjasviðs.

Slide8

Framtíðarsýn fyrir svæðið: Mynd sýnir úti-/leiksvæði barna sunnanvert við fimleikahús (núverandi íþróttahús), viðbyggingu þar við og fyrirhugað nýtt íþróttahús til hægri (rautt9. Fyrir miðju má sjá útileiksvæði barna, bæði framan við nýja skólaviðbyggingu sem og á túni við enda grasvallar.

Slide9Framtíðarsýn fyrir svæðið: Myndin sýnir hvernig útileiksvæði barna er rammað inn á suðurhlið nýrrar skólabyggingar (drög að hönnun).

Slide10

Framtíðarsýn fyrir svæðið: Horft er innan úr matsal/samkomusal á jarðhæð í nýrri skólabygginu. Myndin og aðrar tengdar sýna möguleika, hvernig tillagan kemur til móts við þarfir skólans um stærri samkomusal og matsal. Með opnun inn í torgmiðju og jafnvel út á útisvæði myndast stórt svæði sem nýta má vel á hátíðisdögum og uppskeruhátíðum. Myndir sýna drög að hönnun og möguleikum sem vinnast með framsettum tillögum.

Slide11Framtíðarsýn fyrir svæðið: Mynd sýnir torgmiðju að sumri til, horft eftir gönguás til austurs að íþróttahúsi og út á íþróttavöllinn - þegar skólar eru í fríi og torgmiðja og íþróttasvæði nýtist fyrir mögulega aðra starfsemi. Myndir sýna drög að hönnun og möguleikum sem vinnast með framsettum tillögum.

Slide12

Framtíðarsýn fyrir svæðið: Mynd sýnir torgmiðju að sumri til, þegar skólar eru í fríi og torgmiðja og íþróttasvæði nýtist fyrir mögulega aðra starfsemi. Myndir sýna drög að hönnun og möguleikum sem vinnast með framsettum tillögum.

Fundir með hagsmunahópum

Í mars var boðað til kynninga þar sem vinna manvirkjasviðs var kynnt. Fundað var með fjölmörgum hagsmunaaðilum og á heildina litið var mikill samljómur um staðsetninguna og þær grófu hugmyndir að framtíðarsýn miðsvæðisins sem voru kynntar. Margar góðar ábendingar komu fram á þessum kynningum og þess ber að geta að það voru aðila einnig sem telja að leið C hafi kosti umfram leið A.

Eftir páska munum við boða til íbúafundar um verkefnið. Ég bið fólk að hafa í huga að enn er ýmsum spurningum ósvarað – bæði hvað varðar framkvæmdir og útfærslur. Það er aðeins búið að hanna útlínur af húsi og sýna möguleikana í framtíðar uppbyggingu á svæðinu. Í þeirri vinnu sem fyrir höndum er þarf að fara á dýptina í samtali við sérfræðinga sveitarfélagsins og hagsmunaaðila.

Framhaldið og næstu skref

Í mínum huga er alveg ljóst að leið A er að nær öllu leiti betri fyrir okkur – hvernig sem á það er litið. Ekki síst þegar horft er til framtíðar, sem er akkúrat það sem við sem störfum hjá sveitarfélaginu eigum að gera.

Þörfin fyrir nýtt íþróttahús er orðin mikil og gamla húsið er komið vel til ára sinna. Ég vonast til þess að fljótlega verði formlega tekin ákvörðun um staðsetningu og hún afgreidd í bæjarstjórn. Þá tökum við næstu skref í verkefninu og getum loks farið í að byggja hagkvæmt og gott hús – nýtt íþróttahús fyrir okkur Hornfirðinga.

Áfram Hornafjörður!

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri 


ÍTAREFNI

Ítarefni - kostnaðaráætlun - mannvirkjasvið Svf. Hornafjarðar febrúar 2025

Ítarefni - Kynning mannvirkjasviðs fyrir hagsmunaaðilum - Öll kynningin 2025-03

Ítarefni - Kynning mannvirkjasviðs fyrir hagsmunaaðilum - Styttri breytt útgáfa 2025-03