• Hjukrunarheimilid

Framkvæmdir sveitarfélagsins

20.7.2023

Í þessari grein ætla ég að varpa ljósi á nokkur af þeim framkvæmdaverkefnum sem í gangi eru hjá sveitarfélaginu.

Í þessari grein ætla ég að varpa ljósi á nokkur af þeim framkvæmdaverkefnum sem í gangi eru hjá sveitarfélaginu. Ekki er um að ræða tæmandi lista verkefna enda mikið framkvæmt í ár og margt í farvatninu hjá okkur.

Úboð á sorphirðu og svæði

Nýlega voru opnuð tilboð í sorphirðu sveitarfélagsins og er verið að fara yfir gögnin. Í haust verða fjórir úrgangsflokkar sóttir á heimili: pappi og pappír, plast, matarleifar og svo blandaður úrgangur. Við reiknum með því að þeir sem vilji fá fjórar ruslatunnur geti óskað eftir innra hólfi í eina tunnuna undir matarleifar. Þá geta þá þeir sem henda litlu magni af blönduðum úrgangi óskað eftir minni tunnu undir þann úrgang og greitt minna fyrir vikið. Sveitarfélagið hefur einnig lengt opnunartíma söfnunarstöðvarinnar við Gáruna og lagt ríka áherslu á snyrtilega umgengni þar.

Led væðing götulýsingar á Höfn

Líkt og fram kom í fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins fyrir árið var ákveðið að endurnýja götulýsingu á Höfn á árinu. Útboði á búnaði er lokið og gengið var til samninga við Reykjafell. Götulampar eru í pöntun hjá framleiðanda á Ítalíu og koma að öllum líkindum til okkar í september. Verðkönnun vegna vinnu við uppsetningu og tengingu á ljósunum er í vinnslu. Gert er ráð fyrir að ný lýsing verði komin upp í bænum fyrir jól.

Gagnaveita Hornarfjarðar

Lokið hefur verið við tengingu Lónssveitar og er þar með allt dreifbýli sveitarfélagsins orðið tengt ljósleiðara. Fjölmargir notendur eru enn að tengjast gagnaveitunni, enda mikil uppbygging í sveitunum og fólki stöðugt að fjölga.

Viðhald og loftgæði í Nýheimum

Unnið hefur verið við að bæta loftgæði innanhúss í Nýheimum. Búið er að breyta inntaki og frákasti að og frá loftræstisamstæðu. Inntak var fært ofar á húsið og var það gert til að koma í veg fyrir hættu á mengun að utan inn í loftræstikerfið. Hreinsun á loftræstikerfinu verður einnig framkvæmd í sumar. Verið er að klára að skipta um þakglugga Nýheima og nýtt ruslagerði verður sett og tunnur færðar lengra frá húsi og inntaki loftræstingar. Þessum framkvæmdum verður lokið fyrir skólabyrjun.

Heppuskóli millibygging

Í fjárhagsáætlun ársins var bætt við fjármunum í viðhaldsramma fasteigna sveitarfélagsins. Í Heppuskóla er nú verið að endurbæta þak og samhliða því unnið að lagfæringum á lofti á efri hæð millibyggingar. Þetta eru framkvæmdir til að bæta loftgæði innandyra og gera nauðsynlegar endurbætur á þakinu í þessum hluta hússins. Gangar skólans verða einnig málaðir og á þessu að vera lokið fyrir skólabyrjun í haust.

Ráðhús aðgengi og útlit

Eins og margir hafa tekið eftir er búið að stórbæta aðgengi að ráðhúsinu og er verkið að klárast. Aðeins á eftir að múra stoðvegg og laga sökkul á húsinu. Þá munu koma merkingar á húsið og led lýsing í tröppurnar. Um er að ræða geysilega vel heppnaða framkvæmd.

Radhusid

Vel heppnaðar malbiksframkvæmdir

Malbikunarflokkur frá Malbikun Akureyrar kom til okkar mánudaginn 26. júní sl. Fjölmargar götur voru malbikaðar ásamt bílastæðum, göngustígum og gangstéttum. Gekk malbikun framar vonum og veðrið lék við okkur á framkvæmdatímanum. Við viljum öll hafa bæinn okkar snyrtilegan og fallegan og er þetta einn þáttur í þeirri vinnu. Gert er ráð fyrir að flokkurinn komi aftur til okkar í haust.

Hafnarbraut_1689866295717

Hrollaugsstaðir - mikill kraftur í UMF Vísi

Ungmennafélagið Vísir í Suðursveit sendi bæjarráði fyrr á árinu erindi þar sem þau óskuðu eftir styrk til að setja upp félagsaðstöðu í húsinu. Bæjarráð brást eldsnöggt við erindinu og veitti ungmennafélaginu styrkinn ásamt því að hraða ýmsum endurbótum á félagsheimilinu. Félagsaðstaða var sett upp í kjallara hússins ásamt því að ráðin var húsvörður. Það er ákaflega gleðilegt að sjá hversu vel hefur tekist til og að farið að nota húsið meira.

Endurbættir og nýir leikvellir

Sveitarfélagið vinnur hörðum höndum að því að endurbæta leikvelli. Fyrsti völlurinn sem ráðist var í endurbætur á er leikvöllurinn sem er á milli Hagatúns og Miðtúns. Á næstu dögum klárast hann að fullu en þar verða nokkur tæki sem yngri íbúar geta skemmt sér konunglega í. Þá er stefnan að setja leikvöll á Leirusvæði og er sá völlur í hönnun. Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.

Leikvollur

Hjúkrunarheimilið

Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili hafa dregist nokkuð en vonandi kemst skrið á verkefnið á næstu vikum. Nýjustu fréttir eru þær að verktaki er að skila módelum af veggjaeiningunum til rýni hjá hönnuðum og svo fara þær í framleiðslu. Verkáætlun verður uppfærð í framhaldi af því. Þá mun verktaki á næstunni setja meiri kraft í verkið á byggingarstað og vinna í lögnum í grunni og utan við grunninn.

Hjukrunarheimilid

Fráveitumál

Unnið er markvisst að því tengja allan bæinn inn á hreinsivirkið í Óslandi. Gert er ráð fyrir að áfangi þrjú, tenging Leirusvæðis, klárist um næstu mánaðarmót. Þá rennur ekkert skólp lengur í Skarðsfjörðinn frá Höfn. Unnið er að hönnun fjórða áfanga þar sem innbærinn verður tengdur inn á hreinsivirkið og dælubúnaði komið fyrir neðan við Nýheima og á Leiðarhöfða. Við gerum ráð fyrir að fjórði áfangi verði boðinn út upp úr áramótum.

Leiðarhöfði

Unnið er að deiliskipulagi Leiðarhöfða í samræmi við vinningstillögu um uppbyggingu hans og samhliða nánari hönnun svæðisins. Gert er ráð fyrir að skipulagið verði kynnt í lok sumars og sótt verði um styrk til framkvæmdanna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í haust. Fáist styrkur verði unnt sé að hefja framkvæmdir í framhaldi af vinnu við fjórða áfanga fráveituframkvæmda næsta sumar.

Leidarhofdi_1689866802109

Óvissu um dýpkun á Grynnslum eytt

Vegagerðinni hefur verið falið að hefja aðgerðir við dýpkun innsiglingarleiðar og tryggja þannig áfram rekstrarhæfi hafnarinnar. Meðal aðgerða er að hafa dýpkunarskip til staðar hér á Höfn í vetur og mun skipið nýta öll tækifæri sem gefast til að dýpka siglingarennuna. Vegagerðin mun svo í samráði við okkur heimafólk nýta þá reynslu til að móta langtímaaðgerðir til að tryggja rekstrarhæfi hafnarinnar. Samhliða þessu verður áfram unnið að rannsóknum með það að markmiði að tryggja greiða siglingaleið um Grynnslin til lengri tíma.

Göngustígur í Öræfum

Framkvæmdum og frágangi fer að ljúka á nýjum göngustíg á milli Skaftafells og Svínafells, sem er hluti Jöklaleiðarinnar. Nýjar göngubrýr eru komnar yfir bæði Skaftafellsá og Svínafellsá. Hönnun á merkingum og skiltum er á lokametrunum og er gert ráð fyrir formlegri opnun leiðarinnar í ágúst.

Æfingatæki á útisvæðum

Unnið hefur verið að hönnun á svæðum fyrir útiæfingartæki sem staðsett verða við minigolfvöllinn og þar sem sviðið er undir hólnum við gönguleiðina út í Ægissíðu. Undirbúningur á svæðunum hefst á haustdögum, tímasetning er þó háð afhendingu tækjanna.

Leikskólinn - viðbygging

Ekki bárust nein tilboð í stækkun leikskólans og því þarf að endurhugsa hvernig við komum verkefninu af stað. Við höfum þegar brotið verkefnið upp með það að markmiði að reyna að klára framkvæmdir á lóðinni fyrir haustið og bjóða þá bygginguna sjálfa út aftur í haust. Með stækkuninni er reiknað með því að öll börn geti hafið leikskólagöngu í kringum 12 mánaða aldur miðað við þann barnfjölda sem hefur verið í sveitarfélaginu síðustu ár.

Aukið umferðaröryggi

Talsvert hefur verið hugað að umferðaröryggismálum á Höfn. Lokið er uppsetningu á merkingum á þeim svæðum sem hafa 30 hámarkshraða skv. umferðaröryggisáætlun. Lagður var nýr göngustígur neðan við Fiskhól. Auk þess hefur verið bætt við gönguþverunum að skólunum og málaðar leiðilínur á götur við vigtina. Óskað hefur verið eftir því að Vegagerðin komi á gönguþverun yfir Hafnarbraut til móts við tjaldsvæðið.

Styrkvegasjóður

Sveitarfélagið fékk úthlutað 5 milljónum úr styrkvegasjóði sem nýtt verður í lagfæringar á skemmdum á vegum að ferðamannastöðum í sveitarfélaginu.

Ráðhústorgið

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir var útbúið grænt svæði með bekkjum og sumarblómum á svæðinu milli Ráðhússins og Nýheima. Svæðið hefur verið óspart notað af gestum sem heimsækja okkur og í framtíðinni langar okkur að útbúa á svæðinu vistlegt og grænt Ráðhústorg.

Radhustorgid

Önnur verkefni

Í Hafnarskóla stendur til að mála töluvert á göngum innandyra sem og að mála Kátakot að utan. Þetta klárast fyrir skólabyrjun. Þá verða báðir vatnstankarnir okkar báðir málaðir. Unnið er að viðgerð á þaki á slökkvistöðnni. Nýlega var lagður nýr og glæsilegur göngustígur frá Ekrunni norður á golfvöll. Stígurinn var svo malbikaður nýlega og er mikið notaður.

Stigurinn

Horft fram á veginn

Öflugt atvinnulíf hér í Hornafirði er grunnurinn að því að rekstur sveitarfélagsins stendur jafn vel og raun ber vitni. Þegar við horfum fram á veginn er staðan afar góð. Við erum staðráðin í að nýta okkar einstaka mannauð og auðlindir til að skapa umhverfi sem stuðlar að enn blómlegra mannlífi, vexti, nýsköpun og sjálfbærri þróun. Framtíðin í Hornafirði er sannarlega björt.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri