Framtíðin björt í Sveitarfélaginu Hornafirði

29.9.2016

Undanfarið hefur mikil breyting hefur orðið í litla samfélaginu okkar þar sem atvinnuástand hefur verið með því besta á landinu í mörg ár og  fjölgun ferðamanna hefur farið fram úr björtustu vonum. Fjölgun barna í Öræfum hefur valdið því að nýr leikskóli verður opnaður í næstu viku.

Fjölgun ferðamanna hefur óneitanlega mikil áhrif á samfélagið, og geta þau í senn verið bæði skemmtileg og krefjandi. Samfara mikilli grósku hefur gististöðum, veitingastöðum og fyrirtækjum í afþreyingu fjölgað jafnt og þétt til að mæta auknum gestakomum á svæðið.

Á sama tíma hefur verið mikill skortur á vinnuafli sem og íbúðarhúsnæði, en til þess að koma á móts við þessa þróun samþykkti bæjarstjórn að veita þeim sem vildu byggja íbúðarhús á Höfn lóðir endurgjaldslaust. Hafa viðbrögðin við því verið mjög góð og er nú þegar búið að úthluta sjö einbýlishúsalóðum og einni fjölbýlishúsalóð.

Uppgangurinn hefur ekki síður verið ör í dreifbýlinu og hafa nýir og myndarlegir gististaðir risið í nánast hverri sveit. Samhliða vexti í ferðaþjónustunni hefur áhugi á fastri búsetu í dreifbýli aukist og hefur nú sex lóðum af nýju 16 lóða deiliskipulagi við Hofgarð verið úthlutað.

Að síðustu má nefna að sveitarfélagið auglýsti yfir 15 laus störf á haustdögum og er nú verið að ganga frá ráðningum í flest þau störf sem auglýst voru.