Góð mæting á erindi Ásgerðar
Góð mæting var á erindi Ásgerðar í Ekrunni í dag þar sem hún sagði frá mastersrannsókn sinni sem snérist um áhrif heilsuþjálfunar á líðan.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að þjálfunin hefur jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega líðan þátttakenda. Með því að taka þátt í námskeiðinu fundu þau fyrir jákvæðum áhrifum á vöðvastyrk, líkamlegt þol og úthald. Einnig fundu þau jákvæð félagsleg og andleg áhrif tengt þátttöku sinni þar sem þau lýsa góðum og nærandi félagsskap og gleði. Hvað varðar lífsgæði þá voru þau þakklát fyrir góða heilsu en aðspurð hvort Heilsuþjálfun 65+ hefði haft áhrif á mat þeirra á lífsgæðum, töldu þau svo ekki vera.
Ályktun: Heilsuþjálfun 65+ hefur jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega líðan og er liður í því í að viðhalda góðum lífsgæðum. Mikilvægt er að boðið sé uppá námskeið sem þessi fyrir þennan aldurshóp til að bæta líðan og lífsgæði aldraðra, auk þess að draga úr hættu á sjúkdómum og fylgikvillum öldrunar.
Sveitarfélagið vill því minna eldri borgara á tímana hjá Kollu í Sporthöllinni - það má bara mæta í Sporthöllina kl. 10:00 á þriðjudögum og fimmtudögum.