• Mynd_i_frett2

Graffíll – Listahátíð ungs fólks

Sköpun, samfélag og framtíð ungs fólks í listum

10.7.2025

Á Höfn í Hornafirði dagana 18. til 19. júlí verður haldin ný og spennandi listahátíð sem ber nafnið Graffíll. Hátíðin er vettvangur fyrir ungt listafólk til að skapa, sýna verk sín og taka þátt í menningarlegu samtali sem sameinar fjölbreyttar listgreinar og lifandi viðburði. Hátíðin sameinar tónleika, tískusýningar, myndlist, dansatriði, kvikmyndir og fjölbreyttar samverustundir.


Markmið hátíðarinnar er tvíþætt: annars vegar að efla sýnileika ungs fólks í listum og hins vegar að búa til samfélag þar sem sköpun, tjáning og frumkvæði fá að njóta sín óháð reynslu, menntun eða uppruna. Í grunninn er Graffíll vettvangur þar sem ungir listamenn geta komið saman, prófað nýjar hugmyndir og deilt þeim með öðrum í öruggu og hvetjandi umhverfi.

Dagskráin sem nú er í vinnslu gefur góð fyrirheit. Hátíðin hefst á föstudegi með opnunaratriði og fjölbreyttri dagskrá þá daga sem hátíðin stendur yfir. Gestir hátíðarinnar geta einnig verið beinir þátttakendur með því að taka þátt í leikjum (Carnival games), spreyja á striga í opinni listamiðju, ásamt öðrum skemmtilegum viðburðum sem boðið verður upp á.

Það sem gefur Graffíl sérstöðu er sú smitandi gleði sem verður til þegar þátttakendur koma saman í sköpun, samveru og samstarfi. Hátíðin leggur ríka áherslu á að brjóta niður múra milli áhorfenda og listafólks. Þó svo hátíðin sé skipulögð og framkvæmd af ungu fólki, þá er hún vettvangur fyrir alla sem vilja taka þátt í gleðinni og styðja við ungt listafólk. Með því að halda viðburð sem þennan á Höfn í Hornafirði er verið að sýna fram á að listsköpun á sér stað alls staðar – og að ungir listamenn eiga heima hvar sem er!

Vonast er til að hátíðin verði hvatning fyrir ungt fólk í samfélaginu og opni sem flestar dyr að frekara samstarfi milli listafólks, menntastofnana, fyrirtækja á svæðinu og sveitarfélagsins. Auk þess að styrkja ungt listafólk er Graffíll mikilvægt innlegg í menningarlíf á landsbyggðinni. Graffíll lofar að vera meira en bara viðburður – þetta er hreyfing. Hátíðin er tákn um nýtt tímabil í menningarlífi Hornfirðinga, þar sem ungt fólk fær að setja tóninn, miðla sinni sýn og móta framtíðina.

Helstu styrktaraðilar Graffíls eru Sveitarfélagið Hornafjörður, Samband Sunnlenskra Sveitarfélaga (SASS), Skemmtifélagið, Skinney Þinganes, Ottó, Heppa, Berjaya og Rauði krossinn.

Hlekkur / Graffíll heimasíða

Við hvetjum ungt fólk eindregið til að taka þátt!