Hæsti styrkurinn til Hornafjarðar úr Framkvæmdasjóði ferðamanna

12.3.2021

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 54 verkefna um allt land og nemur styrkupphæðin samtals 807 milljónum króna.

 Hæsta styrkinn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem er samkeppnissjóður, hlaut Sveitarfélagið Hornafjörður 97,4 m.kr. til að hanna og byggja upp göngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli. Einnig hlaut sveitarfélagið 24,6 m.kr. styrk til að standa að hönnunarsamkeppni fyrir Leiðarhöfða á Höfn.

í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom fram:

„Hér bætist enn myndarlega við þau mörg hundruð verkefni sem Framkvæmdasjóðurinn hefur styrkt á undanförnum árum. Smám saman, en þó örugglega, er að verða bylting í aðstöðu við bæði gamla og nýja ferðamannastaði á Íslandi. Og sífellt liggur meiri heildarsýn á bak við þessa uppbyggingu, sem endurspeglast í tengingum við áætlanir hvers landshluta um uppbyggingu á sínu svæði. Það er mjög jákvæð þróun.“

Þetta er talsverð aukning á milli ára en fjárheimild sjóðsins var aukin tímabundið um 200 milljónir króna sem hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19.

Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til að hanna og byggja uppgöngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli, bygging þjónustuhúss fyrir ferðamenn við Hengifoss og lokastyrkur til uppbyggingar við Þrístapa.

Alls fá 17 verkefni styrki sem eru hærri en 20 milljónir króna. Þar má sem dæmi nefna byggingu skógarhúss við Sólbrekkuskóg, áfangastaði austan Tjörness, stígagerð og brúun í Glerárdal og flotbryggju í Drangey.

Með breyttum lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og breyttu gæðamati eru 46 af 53 verkefnum skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis, en með því er stuðlað að sjálfbærri þróun, jafnvægi og markvissari svæðisbundinni þróun á áfangastöðunum.