Hanna Dís Whitehead ráðin safnvörður Byggðasafns – ný sýning í Gömlubúð í undirbúningi
Menningarmiðstöð Hornafjarðar hefur ráðið Hönnu Dís Whitehead í tímabundið starf safnvarðar Byggðasafns Austur-Skaftafellssýslu út mars 2027. Hún tók við starfinu um síðustu mánaðamót af Tim Junge. Tim hafði síðustu ár sinnt skráningu og ljósmyndun safneignarinnar af mikilli natni auk grafískrar hönnunar fyrir Menningarmiðstöðina.
Með ráðningu Hönnu Dísar hefst nú nýtt og spennandi tímabil í starfsemi safnsins þar sem áhersla verður lögð á að virkja Gömlubúð á ný sem sýningarrými Byggðasafnsins og færa safnmuni nær samfélaginu með aðgengi að munum og fræðslu.
Í sumar hlaut Menningarmiðstöð Hornafjarðar tvo veglega styrki úr Kvískerjasjóði sem undirstrikar mikilvægi verkefna okkar en sótt var um miðlun á arfleið Kvískerjafjölskyldunnar, annars vegar á miðlunarvef héraðsskjalasafns Austur-Skaftafellssýslu og hinsvegar með sýningu í Gömlubúð. Hlutverk kvískerjasjóðs er að efla og styrkja rannsóknir á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu, þar á meðal menningarminjum, í anda áhugasviða og starfa Kvískerjasystkina. Í ár var úthlutað yfir ellefu milljónum króna til tíu verkefna. Þar af hlaut Menningarmiðstöðin styrk fyrir tvö verkefni að upphæð samtals um 5mkr., verkefnin eru Gagnasafn Kvískerja – miðlun frumheimilda og Kvísker – sýning í Gömlubúð á Höfn.
Fyrra verkefnið er þegar vel á veg komið og felst í skönnun og miðlun gagna úr eigu Hálfdáns Björnssonar á Kvískerjum undir stjórn Dags, héraðsskjalavarðar. Skjalasafnið hefur fengið til varðveislu mikið magn af gögnum frá fjölskyldunni á Kvískerjum og eru gögn Hálfdáns nú tekin fyrir í átaksverkefni tengt fyrirhugaðri sýningu í Gömlubúð. Seinna verkefnið, ný Kvískerjasýning í Gömlubúð, hefur hingað til verið á hugmyndastigi en tekur nú stakkaskiptum með þátttöku Hönnu Dísar sem hefur verið ráðin sérstaklega til að hanna og sjá um uppsetningu sýningarinnar í Gömlubúð en Byggðasafnið varðveitir einnig ríkulegt safn muna frá fjölskyldunni.
Hanna Dís Whitehead er menntuð frá Design Academy Eindhoven og hefur áratugalanga reynslu af skapandi vinnu á mörkum hönnunar, listar og handverks. Hún vinnur á skapandi og rannsóknarlegan hátt með fjölbreytt efni svo sem strá, ull og leir. Hún hefur sérstakan áhuga á að skapa samtal milli hluta, sögunnar og áhorfenda sem mun koma sér vel í mótun nýrrar sýningar. Hanna Dís býr og starfar við list sína í Hornafirði og snýr nú aftur til starfa hjá Menningarmiðstöðinni í 50% stöðu safnvarðar en hún hefur áður haft umsjón með listasafni Svavars Guðnasonar, einnig stýrir hún Krakkaklúbbnum Kóbru og hefur tekið þátt
í fjölmörgum samfélagslegum verkefnum með Menningarmiðstöðinni. Þá er hún að auki í hópi listamanna sem undirbýr nú nýja sýningu sem opnar á Svavarssafni á nýju ári þar sem safnkostur byggðasafnsins veitir innblástur og þekkir hún því safnkostinn og sérstöðu hans vel.
Ný Kvískerjasýning verður opnuð í Gömlubúð 14. mars 2027, á 100 ára afmælisdegi Hálfdáns, yngsta barns Kvískerjafjölskyldunnar. Saga Kvískerjafólksins er stór hluti af menningararfi svæðisins, saga sem spannar allt frá byggðaþróun og landbúnaði til náttúrurannsókna, samgangna og lifnaðarhátta á einu sérstæðasta og einangraðasta svæði landsins.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar hlakkar til samstarfs við Hönnu Dís og til að leiða þetta metnaðarfulla verkefni í höfn í samvinnu við samfélagið.
Kristín Vala Þrastardóttir
Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar

