Heillaspor í Hornafirði
Í dag var stór dagur hjá starfsfólki á fræðslu- og frístundasviði þegar það samþykkti einróma að taka þátt í innleiðingu Heillaspora.
Í dag var stór dagur hjá starfsfólki á fræðslu- og frístundasviði þegar það samþykkti einróma að taka þátt í innleiðingu Heillaspora. Heillaspor er verkefni á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) sem miðar að heildrænni nálgun við farsæla þáttöku barna í inngildandi skóla- og frístundastarfi. Heillaspor er eitt stærsta verkefni hins opinbera til að styðja við innleiðingu farsældarlaganna á fyrsta stigi en fyrsta stigið er hið almenna skólastarf og nær til allra barna og starfsmanna í öllum skólum, leik-, grunn-, tón- og framhaldsskólum og í frístund og félagsmiðstöðvum. Heillaspor er áfalla- og tengslamiðuð nálgun og leiðarljós þeirra er að börn og starfsfólk:
· Upplifi skólann sem öruggan stað
· Upplifi að sér sé mætt af næmni og skilningi
· Upplifi stöðugleika
· Geti treyst á örugg tengsl
· Finni sína rödd
Í Heillasporum er lögð áhersla á að nám taki mið af þroska barnins og að barninu sé mætt þar sem það er. Að umhverfið veiti stöðugleika og öryggi þannig að barnið sé rólegt og nái að nýta færni sína og getu til að læra. Lögð er áhersla á að hlýja og umhyggja eru mikilvæg fyrir vellíðan og vellíðan er oft á tíðum grunnur þess að geta lært. Þá er í Heillasporum lögð áhersla á að samskipti byggjast á tjáningu og að öll hegðun er tjáning líka hegðun okkar fullorðna fólksins. Að lokum er ítrekað minnt á að tímamót og breytingar hafa áhrif á daglegt líf barna og taka verður tillit til þess þegar þörfum barns er mætt.
Heillapor er ekki eitthvað nýtt verkefni sem ráðist verður í heldur frekar hugmyndafræði sem styður við starfsfólk svo það geti frekar framfylgt þeim markmiðum sem því er ætlað að ná og fylgt þeim lögum og reglum sem því er ætlað að fylgja. Þannig snýr innleiðing Heillaspora mest að því að starfsfólk ígrundi sína eigin starfshætti, rýni á dýptina út frá sínum veruleika og menningu, styðji við hvert annað og meti sig út frá gæðaviðmiðum sem hugmyndafræðin leggur til.
Heillaspor eða Nurture er verkefni sem á rætur sínar að rekja til Skotlands þar sem unnið hefur verið eftir hugmyndafræðinni í meira en 20 ár. Heillaspor byggja þannig á gagnreyndum aðferðum og er MMS í miklu samstarfi við Skosk yfirvöld í tengslum við innleiðinguna og fá Íslendingar aðgang að öllu þeirra efni.
Formleg innleiðing hefst síðar í vetur með heilsdags námskeiði fyrir allt starfsfólk en vissulega er byrjað að sá fræjum og ræða um þætti sem styðja við Heillaspor.

