Heilsueflandi samfélag

31.10.2016

Fimmtudaginn 27. október s.l. undirrituðu Birgir Jakobsson landlæknir og Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri samstarfssamning um þróunarverkefnið Heilsueflandi samfélag.

Heilsueflandi samfélag er þróunarverkefni undir forystu landlæknisembættisins. Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði, og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi. Verkefninu er ætlað að ná til allra aldurshópa í samfélaginu m.a. í gegnum skólastarf, vinnustaði og starf eldri borgara og stuðla þannig að auknum lífsgæðum.  Grunnskóli Hornafjarðar og FAS hafa verið heilsueflandi skólar um nokkra hríð og er fram líða stundir mun nýr leikskóli verða heilsueflandi leikskóli.  Fyrstu skref í verkefninu eru þau að fulltrúar frá skólum, heilbrigðisstofnunum og íþróttafélögum munu hittast á vinnustofum í landshlutunum til að undirbúa innleiðingu þess.