• Hjukro-Hornafj-

Hjúkrunarheimilið á Höfn – staðan í dag

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri, fjallar um stöðu mála varðandi byggingu nýs hjúkrunarheimilis

22.10.2025

Það hefur mikið verið rætt og ritað um byggingu nýs hjúkrunarheimilis hér á Höfn, en framkvæmdir við nýbyggingu og endurbætur á eldra húsnæði Skjólgarðs hafa tafist mikið. Verkið hefur verið umfangsmikið og krefjandi, bæði fyrir þá sem að framkvæmdinni hafa komið og ekki síður fyrir heimilisfólk og starfsfólk á Skjólgarði, sem hefur þurft að búa við óvissu um framkvæmdalok og skertan aðbúnað á meðan framkvæmdir hafa staðið yfir.

Í þessari grein ætla ég að fara yfir stöðu mála og segja frá því hvar verkefnið stendur nú og hvað tekur við, eftir því sem við hjá sveitarfélaginu getum best upplýst um.

Riftun verksamnings
Bygging hjúkrunarheimilisins hófst sem samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins árið 2022.

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur frá upphafi haft fulla umsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa, þ.e. heilbrigðisráðuneytisins og sveitarfélagsins, og leitt alla verklega framkvæmd og samningsstjórn.

Verkefnið hefur markast af miklum áskorunum. Að mati FSRE var verktaki í verulegum vanefndum og þann 17. október síðastliðinn var verksamningnum formlega rift. Samkvæmt frétt á vef FSRE byggir riftunin á skýrum vanefndum verktaka og var nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi framgang verkefnisins.

Verkefnið færist alfarið til ríkisins – sveitarfélagið losnar undan fjárhagsábyrgð
Síðastliðin föstudag var undirritað samkomulag milli sveitarfélagsins og ríkisins þar sem ríkið tekur alfarið yfir verkefnið – bæði nýbyggingu hjúkrunarheimilisins auk lagfæringa á eldra húsnæði Skjólgarðs.

Samkomulagið felur í sér að ríkið beri framvegis alla ábyrgð, skuldbindingar og réttindi sem tengjast framkvæmdinni, þar með talið hugsanleg málaferli sem kunna að rísa um verkið. Sveitarfélagið losnar þannig undan fjárhagslegri áhættu sem því bar samkvæmt verksamningi.

Þetta er mikilvæg niðurstaða fyrir framtíðarskuldbindingu sveitarfélagsins, og við vonum nú að verkefnið komist aftur á réttan kjöl og með festu til framtíðar.

Erfiðar aðstæður – dugnaður íbúa og starfsfólks
Á meðan á þessu hefur staðið hefur daglegt líf á núverandi hjúkrunarheimili Skjólgarði verið undir auknu álagi. Hjúkrunarheimilið er í beinni nálægð við byggingarsvæðið, enda er nýja hjúkrunarheimilið samtengt eldra húsnæði, og framkvæmdir hafa haft áhrif á starfsemina og lífsgæði heimilisfólks.

Starfsfólk Vigdísarholts, sem er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins, hefur unnið sitt starf af mikilli alúð og þolinmæði við krefjandi aðstæður. Þá hafa heimilisfólk og aðstandendur þeirra sýnt mikinn skilning. Fyrir það vil ég færa öllum hlutaðeigandi einlægar þakkir.

Horft fram á veginn
Það er öllum ljóst að þörfin fyrir hjúkrunarrými er brýn, bæði hér í Hornafirði og víðar um land.

Vonast er til að verkefnið haldi nú áfram án frekari tafa. Sveitarfélagið mun áfram fylgjast náið með framvindu og vera í virku samstarfi við ríkisvaldið, með hagsmuni íbúa að leiðarljósi svo heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk geti loks notið þeirrar aðstöðu sem þau eiga skilið.

Sigurjón Andrésson
Bæjarstjóri Hornafjarðar