Hoffell – uppbygging í sátt við náttúru og samfélag
Undanfarna daga hefur skapast nokkur umræða um áform Bláa Lónsins um áframhaldandi uppbyggingu í Hoffelli í Nesjum hér í Hornafirði. Það er eðlilegt að verkefnið veki athygli og jafnvel áhyggjur, enda er svæðið við Hoffell mikil náttúruperla.
Samtal og sameiginleg sýn – en mikið eftir
Samtal um verkefnið á milli sveitarfélagsins
og Bláa Lónsins hefur verið þétt síðustu ár, þar sem sameiginleg framtíðarsýn
hefur verið um ábyrga uppbyggingu í sátt við náttúruna og hugsuð til lengri
tíma. Sveitarfélagið hefur átt samtal um skipulagsmál, orkumál, aðgengi og
samfélagsáhrif verkefnisins. Einhugur hefur ríkt um málið í bæjarstjórn, en það
er enn í vinnslu og ferlið langt frá því að vera lokið.
Ferlið rétt að hefjast – í opnu og gagnsæju
samráði
Það er mikilvægt að hafa í huga að verkefnið
er aðeins í upphafi síns ferils. Nú liggur fyrir matsáætlun sem markar fyrsta
áfanga mats á umhverfisáhrifum. Áætlunin er nú til kynningar í fjórar vikur þar
sem almenningur, hagsmunaaðilar og umsagnaraðilar geta komið sínum sjónarmiðum
á framfæri í gegnum Skipulagsgátt. Að öllum líkindum mun umhverfismatsskýrslan
liggja fyrir á vormánuðum 2026 og Skipulagsstofnun gefa álit í júní 2026.
Verkefnið er því á undirbúningsstigi, og allar ákvarðanir verða teknar á grundvelli
opinna gagna og faglegs samráðs.
Hér er rétt að árétta að Bláa Lónið ákvað að setja verkefnið í umhverfismat, þrátt fyrir að mat margra sérfræðinga væri að svo þyrfti ekki. Að mati fyrirtækisins væri það hins vegar betra að setja verkefnið í mat á umhverfisáhrifum, þar sem það ferli er mun opnara gagnvart almenningi en aðrir valkostir.
Núverandi baðaðstaða í Hoffelli
Virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum
Sveitarfélagið ber virðingu fyrir sjónarmiðum
þeirra sem hafa lýst áhyggjum af verkefninu og við skiljum vel að fólki sé
umhugað um svæði eins og Hoffell. Sú
virðing er þó ekki andstæða uppbyggingar – heldur er hún forsenda þess að
verkefnið verði til í sátt.
Frá upphafi hefur verkefnið verið fyrir opnum tjöldum og íbúafundur hefur þegar verið haldinn þar sem verkefnið var kynnt og rætt. Í kjölfar þess hefur verkefnið tekið afar mikilvægum breytingum sem eru einmitt með hagsmuni nærsamfélagsins að leiðarljósi.
Nú er stefnt að því að byggja baðlón og jöklasýningu á þegar röskuðu svæði við Hoffellslón og horfið hefur verið frá hugmyndum um gistingu við lónið. Heilsársakvegur að lóninu mun bæta mikið aðgengi almennings að Hoffellslóni. Baðlónsbyggingin mun hýsa jöklasýningu, salerni og kaffihús og þannig má segja að upplifun gesta af heimsókn að Hoffelli verði enn og betri að lokinni uppbyggingu, hvort sem gestir vilja fara í bað eða ekki.
Ábyrg nýting lands – án þess að fórna
náttúrunni
Hornafjörður er fjórða stærsta sveitarfélag
landsins – gríðarlega víðfeðmt svæði með fjölbreyttri og einstæðri náttúru. Um
helmingur sveitarfélagsins er innan Vatnajökulsþjóðgarðs, sem gerir Hornafjörð
að einu verndaðasta sveitarfélagi landsins. Við lítum á það sem styrkleika,
ekki hindrun – því vernd og uppbygging fara saman þegar vandað er til verka.
Vissulega mun uppbygging baðstaðar í Hoffelli fela í sér rask, líkt og allar framkvæmdir gera. En það er mikilvægt að setja það í samhengi: raskið nær aðeins til mjög lítils hluta jökulgarðsins við Hoffell. Þá var staðsetningin sem fyrirhuguð er valin með tilliti til þess að jökulgarðurinn þar er þegar að hluta til raskaður.
Heita vatnið – verðmæt íslensk auðlind og hluti af okkar menningu
Stundum má heyra létta kaldhæðni þegar rætt er
um ný baðlón – eins og spurt: „þurfum við virkilega annað?“ Það er eðlilegt að
fólk spyrji hvort þörf sé á fleiri baðstöðum á Íslandi – en svarið við því er
já, ef vel er að verki staðið. Þetta er því ekki spurning um fjölda baðstaða,
heldur hvernig þeir eru byggðir, reknir og tengdir samfélögum sínum.
Baðstaðir eru órjúfanlegur hluti af íslenskri
menningu og lífsgæðum. Þeir endurspegla ekki ofgnótt – heldur vaxandi virði þeirrar
auðlindar sem við búum yfir, heita vatnsins.
Frá Flúðum og alla leið austur til Egilsstaða er enginn baðstaður, þrátt fyrir að þetta sé eitt vinsælasta svæði landsins á meðal ferðafólks. Uppbyggingin í Hoffelli mun því fylla raunverulegt skarð, styrkja ferðaþjónustu og tryggja meiri samfellu í þjónustu og upplifun austur með landinu.
Núverandi starfsemi í Hoffelli
Bláa Lónið rekur nú þegar baðstað og gistingu
í Hoffelli undir merkjum Glacier World (Jöklaveröld) og hefur nýlega ráðist í
umfangsmiklar endurbætur baðstaðnum og gististaðnum. Þessi uppbygging hefur
þegar eflt ferðaþjónustu í Hornafirði, skilað störfum, auknum umsvifum og
jákvæðum áhrifum á samfélagið. Framhaldið – sem nú er til mats og samráðs –
byggir á þessum grunni með áherslu á sjálfbærni, náttúrulega hönnun og
samræmingu við landslag og náttúru svæðisins.
Framtíðarsýn í Hornafirði
Uppbyggingin í Hoffelli fellur vel að
framtíðarsýn Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Hér byggjum við á sterkum
undirstöðum: sjávarútvegi, ferðaþjónustu og öflugum landbúnaði. Við ætlum okkur
að vera á pari við það besta í sjávarútvegi, að vera best í því að taka á móti
gestum og veita þeim einstaka upplifun og fræðslu um náttúru og menningu
svæðisins.
Við ætlum að byggja á okkar eigin styrkleikum og sérkennum – og treysta því að aðrir vilji koma hingað og njóta þess sem við höfum upp á að bjóða. Við viljum framleiða vörur og bjóða upplifanir og fræðslu – að bjóða gestum okkar það sem er ekta, hreint og íslenskt.
Lengri dvöl, sterkara samfélag
Eitt af því sem við sjáum gerast með
uppbyggingu á baðstað í Hoffelli er að laða fleiri gesti austar á landið. Þá
mun baðlón stuðla að því að þeir dvelji lengur sem er lykilatriði fyrir okkur
öll – þegar gestir dvelja lengur, þá vex ávinningurinn fyrir rekstraraðila og samfélagið
allt.
Þá ber einnig að nefna að það starfsfólk sem mun starfa við ferðaþjónustuna í Hoffelli verður að stærstum hluta búsett á Höfn, og það styrkir samfélagið okkar. Þannig skapar verkefnið tækifæri til að byggja upp sterkari og fjölbreyttari byggð í Hornafirði.
Jöklasýning – menning, fræðsla og ný
tækifæri til samstarfs
Fyrstu hugmyndir um baðstaðinn í Hoffelli gera
ráð fyrir að þar verði glæsileg jöklasýning. Sú sýning mun byggja á
Jöklasýningunni sem þegar er til staðar í Hoffelli og var sett upp af þeim
heiðurshjónum Ingibjörgu og Þrúðmari í Hoffelli, sem hafa árum saman miðlað
þekkingu og ástríðu fyrir sögu, náttúru og jöklum svæðisins til gesta hvaðanæva
að. Þessi arfleifð verður áfram í forgrunni – en í nýjum búningi sem sameinar
sögu, vísindi, list og náttúruupplifun á einstakan hátt.
Þannig verður til vettvangur sem tengir saman gamla og nýja tíma, þar sem gestir geta bæði notið náttúrunnar og öðlast dýpri skilning á jöklum, loftslagsbreytingum og menningu svæðisins.
Verkefnið skapar einnig ný tækifæri til samstarfs við Vatnajökulsþjóðgarð og aðra stofnanir á svæðinu. Bláa Lónið hefur þegar óskað eftir samráði við þjóðgarðinn, og þar eru fjölmargir möguleikar:
- Samvinna um gönguleiðir og aðgengi að svæðinu.
- Sameiginleg fræðsla og sýningar um jökla, náttúru og loftslagsbreytingar.
- Verkefni um rannsóknir og upplýsta náttúruferðamennsku, líkt og tíðkast í
- þjóðgörðum víða um heim.
Þannig getur Hoffell orðið mótunarstaður fyrir nýja tegund ferðaþjónustu – þar sem upplifun, fræðsla, rannsóknir og virðing fyrir náttúrunni fara hönd í hönd.
Framkvæmd í sátt og ábyrgð
Verkefnið í Hoffelli er ekki verkefni sem
gengur gegn náttúrunni – heldur með henni.
Hoffell er þegar skilgreint í aðalskipulagi sem megin-segull í uppbyggingu ferðaþjónustu í Hornafirði. Allt skipulagsferli fer fram með aðkomu sveitarfélagsins, Skipulagsstofnunar og lögbundinna umsagnaraðila, og markmiðið er skýrt: að skapa aðgengi, fræðslu og upplifun á svæðinu á ábyrgan hátt.
Horft til framtíðar
Við í Hornafirði erum í dag að horfa til
framtíðar með ábyrgð og trú á eigin getu. Uppbyggingin í Hoffelli er ekki
aðeins fjárfesting í ferðaþjónustu – hún er fjárfesting í framtíð svæðisins.
Staða verkefnisins í dag - í hnotkurn
- Verkefni: Uppbygging baðstaðar, hótels og þjónustu í Hoffelli í Hornafirði.
- Aðili: Bláa Lónið hf. – í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð.
- Staða: Matsáætlun lögð fram og í kynningu samkvæmt lögum um mat á
umhverfisáhrifum. - Samráð: Íbúafundur hefur verið haldinn og verkefnið tekið breytingum eftir
samráð. - Umfang: Lítið rask á afmörkuðu svæði, að hluta til þegar raskaðum jökulgarði.
- Næstu skref:
o Umsagnarfrestur í Skipulagsgátt stendur yfir (haust 2025).
o Umhverfismatsskýrsla lögð fram á vormánuðum 2026.
o Álit Skipulagsstofnunar áætlað sumarið 2026.
Sigurjón Andrésson
Bæjarstjóri Hornafjarðar

