• Hringtorg-a-nyja-veginum

Hornafjörður ár framfara og árangurs

Grein eftir Sigurjón Andrésson bæjarstjóra

19.12.2025

Þessi grein birtist einnig í hátíðarútgáfu Eystrahorn sem kom út fimmtudaginn 18. desember. Í greininni ætla ég að líta til baka yfir árið sem er að líða og stikla á stóru um áherslur, verkefni og tímamót í Hornafirði.

Eftirminnileg forsetaheimsókn
Í mars komu forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, í opinbera heimsókn til Hornafjarðar. Þetta var fyrsta opinbera innanlandsheimsókn forsetahjónanna og með henni sýndu þau samfélagi okkar mikla virðingu.

Forsetahjonin-asamt-bornum-i-Hornafirdi

Forsetahjónin umkringd börnum – hlý heimsókn þar sem einlægni og góð tenging við yngstu kynslóðina var áberandi. 

Í heimsókninni kynntu þau sér mannlíf og fjölbreytta starfsemi í sveitarfélaginu og heilluðu með einlægni sinni, ekki síst í samskiptum við börn og ungt fólk, þar sem hlýja, nærvera og áhugi á sjónarmiðum þeirra var áberandi. Hornafjörður skartaði sínu fegursta og lýstu forsetahjónin mikilli ánægju með heimsóknina.

Barnvænt sveitarfélag – verðmæt viðurkenning
Í ár hlaut Hornafjörður viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag, það fjórða hér á landi. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn þar sem börn og ungmenni léku lykilhlutverk og undirstrikuðu að hér er ekki aðeins um titil að ræða, heldur mikilvæga vegferð.

Verkefnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og markmiðið er skýrt: að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku. Hugmyndin um „ekkert um börn án barna“ minnir okkur á að allt sem er gott fyrir börn er líka gott fyrir samfélagið í heild.

Öryggismál og innviðir – sameiginlegt baráttumál
Öryggi íbúa og gesta hefur verið eitt af lykilviðfangsefnum sveitarfélagsins undanfarin ár. Hornafjörður er víðfeðmt sveitarfélag með krefjandi náttúru, mikla umferð ferðamanna og langar vegalengdir, sem kallar á öfluga viðbragðsaðila og trausta öryggisinnviði.

Á árinu urðu mikilvæg tímamót þegar nýtt björgunarskip, Ingibjörg, kom til Hornafjarðar og samhliða var sett upp ný flotbryggja við höfnina. Þá standa Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnadeildin Framtíðin að byggingu nýrrar björgunarmiðstöðvar á Höfn sem verður tekin í notkun á næstunni og mun styrkja öryggisinnviði sveitarfélagsins verulega.

Í Öræfum var ný og öflug slökkvibifreið tekin í notkun og jafnframt hafin vinna við þarfagreiningu fyrir nýja björgunarmiðstöð sem stefnt er að því að rísi þar. Öryggismál eru okkur ofarlega í huga – og þau eru sameiginlegt ábyrgðarmál okkar allra.

Framkvæmdagleði og kraftur
Eitt af því sem hefur einkennt árið í Hornafirði er framkvæmdagleði og trú á framtíðina. Sveitarfélagið sjálft, fyrirtæki og einstaklingar hafa ráðist í fjölmörg verkefni sem bæta aðstöðu, styrkja innviði og efla samfélagið til framtíðar. Af nægu er að taka og það sem hér er nefnt er langt frá því að vera tæmandi.

Framkvaemdir-vid-nyja-verslunarmidstod

Framkvæmdir við nýja verslunarmiðstöð ganga vel og stefnt er að opnun næsta sumar – fjær á myndinni má sjá hvað nýtt Hagahverfi mun taka á sig mynd á næstu árum. 

Nýr Sindrabær og viðbygging við leikskólann
Á árinu lauk vel heppnuðum breytingum á Sindrabæ, þar sem aðstaða var stórbætt og húsið gert enn betur í stakk búið fyrir menningar- og félagslíf. Með framkvæmdunum fær Tónskólinn okkar glæsilega endurnýjaða aðstöðu sem styrkir tónlistar- og menningarstarf til framtíðar.

Jafnframt var vígð ný og glæsileg viðbygging við Leikskólann Sjónarhól sem hefur þegar skilað sér í betri aðstöðu fyrir börn og starfsfólk – mikilvæg fjárfesting í framtíð samfélagsins.

Fjárfesting í sjávarútvegi og verðmætasköpun
Atvinnulífið hefur sýnt sama metnað. Skinney-Þinganes hf. hefur ráðist í umfangsmiklar fjárfestingar, þar á meðal byggingu nýrrar, alsjálfvirkrar frystigeymslu sem markar tímamót í íslenskri sjávarútvegsstarfsemi.

Þá hefur fiskimjölsverksmiðjan farið í gegnum mikla endurnýjun og svo styttist í komu nýs uppsjávarskips félagsins, en afhending þess er áætluð um miðjan febrúar. Slík verkefni byggja á langtímahugsun og endurspegla sterka trú á samfélagið, atvinnulífið og áframhaldandi verðmætasköpun í Hornafirði.

Húsnæði, búseta og vaxandi bær
Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur einnig verið áberandi. Í Hagahverfi, nýju og spennandi íbúðahverfi á Höfn, er verið að skapa fjölbreytt og vandað búsetuumhverfi með góðum tengingum við útivist, gönguleiðir og þjónustu.

Þar er lögð áhersla á skýrt skipulag, góða aðstöðu fyrir fjölskyldur og möguleika til uppbyggingar til framtíðar. Hagahverfi er mikilvægt skref í að mæta eftirspurn eftir lóðum og íbúðum og styrkja Höfn sem eftirsóknarverðan búsetukost.

Kannski eitthvað í vatninu?
Það vakti ekki litla athygli á árinu þegar Creditinfo birti lista sinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki og í ljós kom að sautján slík fyrirtæki hafa aðsetur í Hornafirði. Hlutfallslega er það einstakur árangur og segir sitt um kraftinn sem hér býr.

Kannski er eitthvað í vatninu, eins og spurt var – en líklegra er að skýringin sé fólkið sjálft: frumkvæði, dugnaður, stuttar boðleiðir og mikil samstaða. Þegar fyrirtækjum gengur vel, gengur samfélaginu vel – og þessi hringrás er Hornfirðingum vel kunn.

Samtakamáttur í Suðursveit
Ég vil einnig nefna samtakamáttinn í Suðursveit, þar sem íbúar hafa sýnt í verki hvað er hægt að gera þegar fólk stendur saman. Frjálsíþróttavöllur Ungmennafélagsins Vísis er ekki aðeins mannvirki, heldur tákn um dugnað, sjálfboðaliðaanda og samhug.

Það er þessi andi – fólkið sjálft – sem byggir samfélag til framtíðar!

Við þetta tækifæri vil ég líka nefna að vígslumót Vísis vallarins verður haldið 27. júní 2026, nákvæmlega ári eftir fyrstu skóflustunguna. Ég hlakka til að sjá sem flesta þar.

Ríkið tekur alfarið við – sveitarfélagið losnar undan fjárhagsáhættu
Eitt af stærri baráttumálum sveitar-félagsins á árinu var að losna undan fjárhagslegri ábyrgð á framkvæmdum við nýja hjúkrunarheimilið. Verkið hefur tafist verulega og skapað óvissu fyrir heimilisfólk og starfsfólk Skjólgarðs.

Nú hefur þó náðst mikilvæg niðurstaða þar sem ríkið hefur tekið verkefnið alfarið yfir og sveitarfélagið losnað undan verulegri fjárhagsáhættu og framtíðarskuldbindingum sem nema hundruðum milljóna króna.

Þá liggur fyrir að Ístak mun taka verkefnið yfir sem stýriverktaki. Framkvæmdir eru nú að komast aftur á réttan kjöl og gert er ráð fyrir að taka nýja hjúkrunarheimilið í notkun næsta sumar.

Leiðarstefið er skýrt – byggjum nýjan miðbæ fyrir íbúana
Á árinu var stigið mikilvægt skref í átt að uppbyggingu nýs miðbæjar á Höfn. Markmiðið er að skapa lifandi og aðlaðandi miðpunkt bæjarins þar sem mannlíf, verslun, þjónusta, menning, íbúðir og opin svæði mætast.

Áherslan er skýr: að byggja miðbæinn fyrst og fremst fyrir heimafólk – reynslan sýnir að þegar hlutirnir eru gerðir fyrir samfélagið sjálft, verður staðurinn um leið aðlaðandi fyrir aðra.

Nýr vegur yfir Hornafjarðar-fljót – það hafðist
Á næstu mánuðum verður nýi vegurinn yfir Hornafjarðarfljót opnaður og nú stendur yfir lokafrágangur framkvæmda. Um mitt ár náðist loks sú niðurstaða sem við höfum lengi barist fyrir: að fá hringtorg á veginn þar sem hann tengir þéttbýlið á Höfn og Nes, í stað tveggja stórhættulegra T-gatnamóta.

Vegurinn mun stytta leiðina til Hafnar um rúma 14 kílómetra og bæta bæði öryggi og tengingar innan sveitarfélagsins til framtíðar.

Verðmæti jólanna
Jólin minna okkur á að hægja á okkur og gefa því gaum sem skiptir mestu máli – samveru með fjölskyldu og vinum. Fyrir mér eru jólin tími þakklætis; fyrir samfélagið okkar, fólkið sem hér býr og starfar og fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt.

Ég óska öllum Hornfirðingum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Megi jólin færa ykkur hlýju, frið og góðar stundir með þeim sem ykkur þykir vænst um.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri