Hornfirska Rithöfundakvöldið
Fimmtudaginn 2. október hélt Menningarmiðstöð Hornfirðinga Hornfirskt bókakvöld í Nýheimum en tilefnið var að óvenju margar bækur hafa komið út á síðustu mánuðum þar sem höfundar og/eða umfjöllunarefnið tengist Sveitarfélaginu Hornafirði.
Fyrstur til að stíga á stokk var Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Hornafirði en hann kynnti bók sína Víðerni – Verndun hins villta í náttúru Íslands sem kom út hjá Háskólaútgáfunni fyrr á þessu ári. Í bókinni eru víðernin könnuð frá ólíkum sjónarhornum og leitað svara við ýmsum grunnspurningum um þau, svo sem hvað þau eru, hvaða gildi þau bera og hvernig verði best staðið að verndun þeirra.
Næstur tók við Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands en Snævarr hefur hlotið heiðurstign Alþjóðasambands stjörnufræðinga ásamt því að vera einn af okkar helstu jöklafræðingum. Í samstarfi við Hjörleif Guttormsson og Odd Sigurðsson ritaði Snævarr 97. árgang Árbókar Ferðafélags Íslands þar sem fjallað er um svæðið frá Núpsstað til Suðursveitar.
Þegar hér var komið við sögu breyttum við örlítið um gír og snérum okkur að endurminningum og ævisögum.
Karl Skírnisson tók við keflinu af Snævarri og sagði frá tilurð bókarinnar Frá Hamborg að Borgum sem fjallar um lífshlaup Margotar Gamm, móður Karls. Margot fæddist í Hamborg í Þýskalandi árið 1931og var því ung að árum í hörmugum seinni heimsstyrjaldarinnar. Aðeins 17 ára gömul fluttist Margot til Íslands til að gerast au-pair í kaupfélagsstjórabústaðnum á Höfn. Lífið tók þá við og Margot fluttist fljótlega að Borgum í Nesjum og ól þar börn og buru.
Endurminningar
Wilhelms Wessmanns hótelráðgjafa, Lífsins ferðalag, var næsta bók sem
fjallað var um. Arnþór Gunnarsson kynnti fyrir okkur bókina en hann bjó hana
til prentunar og færði okkur volga úr prentun. Wilhelm bjó í Dyngju á Höfn til
10 ára aldurs þar sem faðir hans Elof klæðskerameistari rak saumastofu. Fjölskyldan
flutti til Reykjavíkur árið 1952 en Wilhelm segir talsvert frá æskuárum sínum á
Höfn í bókinni og í henni eru margar myndir sem faðir hans og fleiri tóku
eystra.
Síðasta bókin sem kynnt var þetta kvöld var Tóm en það er ný ljósmyndabók eftir Sigurþór Spessa Hallbjörnsson. Spessi er einn af mikilvægustu sjónrænu annálahöfundum Íslands og er nú búsettur í Öræfum ásamt konu sinni Áróru Gústafsdóttur, skólastjóra í Grunnskólanum í Hofgarði. Bókin inniheldur um 100 myndir teknar í Öræfunum og formála eftir Ófeig Sigurðsson, rithöfund. Birta Guðjónsdóttir, safnstjóri Svavarssafns tók að sér að kynna bókina í fjarveru Spessa og bauð gestum bókakvöldsins að fylgja sér yfir á Svavarssafn í lok kvölds og skoða þar sýningu Spessa með myndum úr bókinni.
Hornfirska bókakvöldið heppnaðist vel í alla staði og þökkum við öllum fyrir þátttökuna, bæði gestum og höfundum.
Í lokin er rétt að minnast á tvo bókatengda viðburði sem haldnir verða á næstu vikum, en annar þeirra er útgáfuhóf bókarinnar um Sögu Eymundar og Halldóru í Dilksnesi sem Gísli Sverrir Árnason tók saman fer fram á Þórbergssetri sunnudaginn 12. október n.k.
Sunnudaginn 23. nóvember verður Hið árlega Rithöfundakvöld Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar haldið í Nýheimum og hlökkum við svo sannarlega til að taka á móti Hornfirðingum þar líkt og undanfarin ár.
F.h.
Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar
Sandra
Björg