Hugmyndir íbúa um framkvæmdir 2017

3.11.2016

Í október voru íbúar sveitarfélagsins beðnir um að senda inn hugmyndir um hvaða framkvæmdir þeir teldu að vinna ætti að á árinu 2017, hægt var að senda svör í gegn um heimasíðu sveitarfélagsins hornafjordur.is  undir þátttaka.

Helstu niðurstöðurnar voru; að mjög margir vilja göngustíg á milli Hafnar og Nesjahverfis, einnig voru ábendingar um áframhaldandi göngustíg innan Hafnar og fleiri bekki. Margir bentu á að nauðsyn þess er að fara í viðhald á göngustígum innanbæjar á Höfn og í Nesjahverfi. Opin svæði/leikvelli þarf að bæta og gera nútímalegri, hugmynd um að gera grillaðstöðu og fjölskylduvænt umhverfi á opnu svæði.

Margir vilja líkamsræktarstöð við Sundlaugina eða millibyggingu á milli íþróttahúss og sundlaugar. Nýta búningsklefa sundlaugar svo fólk geti farið í pottana eftir æfingu og samnýta aðstöðuna með sjúkraþjálfum og Sindra svo íþróttafólk og eldri borgarar geti einnig nýtt líkamsræktarstöðina. Þá kom fram að bæta þarf íþróttaaðstöðu byggja nýtt íþróttahús eða bæta húsið í Nesjum og laga gólfið í íþróttahúsi á Höfn.

Þegar kom að leikskólamálum komu ábendingar um þrjár leiðir, annað hvort núverandi ástand eða sameina leikskólana við Lönguhóla og færa leikskólann undir Fiskhól. Það kom hugmynd um að hafa nafnasamkeppni á nýjum sameinuðum leiksskóla.

Það kom fram að skortur er á afþreyingu í sveitarfélaginu.  Bent var á að ef sveitarfélagið fari ekki í uppbyggingu á jöklasafni þá er möguleiki á annað sveitarfélag muni ráðast í slíkar framkvæmdir. Gömul hugmynd að gera gamla vatnstankinn að kaffihúsi fyrir ferða-og heimamenn. Hugmyndir um að gera matarsmiðju í sama formi og Vöruhúsið er í dag þar sem fólk getur nýtt smiðjuna til að verka fiskinn sinn eða prufað sig áfram í matvælaframleiðslu. Einnig kom hugmynd um að gera Nytjasmiðju í sama formi.

Þá kom fram að byggja þarf leiguíbúðir eða litlar íbúðir til sölu, svo hægt verði að styðja við fjölgun íbúa. Nauðsyn þess að fara í endurbætur á aðbúnaði í Vöruhúsinu, sporna við hraðakstri, bæta fjarskipti í Nesjahverfi, klára fráveituframkvæmdir og huga að smábátabryggjunni. Halda áfram endurbótum á Holti og setja upp sýningu þar.

Íbúum sveitarfélagsins er þakkað fyrir góð viðbrögð við könnuninni og bent á að ný könnun kemur í hverjum mánuði.