Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú kaupir textíl
Vissir þú að Íslendingar henda um það bil 10 tonnum af textíl á dag? Aðeins um 10% fer í endurvinnslu hér á landi – restin er send úr landi, þar sem stór hluti endar í brennslu til orkuvinnslu í stað endurnýtingar.
Átakinu „10 tonn af textíl“ er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hversu mikið af fatnaði við losum okkur við og að hvetja alla til að kaupa minna, velja vandaðri fatnað og nota lengur þann fatnað sem maður á. Smávægilegar breytingar á venjum okkar sem eru afar mikilvægar er t.d. að gera við fatnað, lána, kaupa notaðan fatnað og flokka rétt. Þessar breytingar geta haft veruleg áhrif, bæði fyrir umhverfið og samfélagið.
Frá árinu 2023 hafa sveitarfélög borið ábyrgð á söfnun notaðs textíls, þjónustu sem er bæði kostnaðarsöm og vaxandi þar sem hraðtíska eykur úrgangsmagnið. Hver flík sem við kaupum og losum okkur síðan fljótt við kostar ekki aðeins mikla peninga heldur skilur slík sóun eftir sig stórt fótspor á jörðinni allri.
Þannig að nú um jólin, áður en þú bætir við enn einni peysu eða trefli í innkaupakörfuna, hugsaðu þig tvisvar um, kannski má frekar gera við, endurnýta eða gefa eitthvað sem hefur raunverulega merkingu.
Sjá nánar á Saman móti sóun og taktu þátt í hreyfingunni fyrir minni sóun og meðvitaðri neyslu.

