IceGuide ehf. sproti ársins í ferðaþjónustu á Suðurlandi

12.4.2017

Óhætt er að segja að líf og fjör sé hjá Hornfirðingum enda á mikil og blómleg uppbygging sér stað í sveitarfélaginu. Samfélagið við rætur Vatnajökuls dregur til sín sífellt fleiri ferðamenn hvaðanæva úr heiminum sem kallar á aukna gistimöguleika sem og fjölbreyttari þjónustu og afþreyingu.

Það er afar ánægjulegt sjá hvernig  sjávarþorpið Höfn og sveitirnar í kring laða til sín laða til sín aðila sem sjá tækifæri í þeim fjölmörgu möguleikum sem ferðaþjónustan og aðrar atvinnugreinar á svæðinu bjóða upp á. Enn ánægjulegra er að verða vitni að velgengni þeirra sem við greinina starfa, og varð það svo á árshátíð ferðaþjónustunnar á Suðurlandi sem haldin var á Hótel Heklu föstudaginn 31. mars sl.

Þar veitti Markaðsstofa Suðurlands hornfirska fyrirtækinu IceGuide viðurkenningu um „Sprota ársins 2016“ Kom fram við athöfnina að fyrirtækið, sem er í eigu hjónanna Óskars Arasonar og Írisar Heiðar Jóhannsdóttur, hefði á skömmum tíma skapað sér góðan orðstír fyrir gæði og metnaðarfulla vöruþróun í jöklaafþreyingu. Auk íshella- og jöklaferða býður fyrirtækið upp á kayaksiglingar innan um ísjaka á Heinabergslóni og eru þær ferðir rómaðar fyrir einstaka upplifun. Með því að hugsa út fyrir rammann en um leið að leita fanga í sínu nánasta umhverfi hefur fyrirtækið skapað sér sérstöðu, en ekki síður gott orðspor sem er lykillinn að árangri og sjálfbærni til framtíðar.

Er fyrirtækinu færðar innilegar hamingjuóskir með árangurinn.

Árdís Erna Halldórsdóttir,

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar.