Ísland ljóstengt

9.7.2019

Unnið er að verkefninu Ísland ljóstengt hjá Sveitarfélaginu Hornafirði um þessar mundir. Framkvæmdir standa yfir á Mýrum og í kjölfarið munu framkvæmdir færast yfir í Nesin.

Fyrir um tveimur árum var haldinn fundur þar sem ljósleiðaralagning var kynnt fyrir íbúum á Mýrum og í Nesjum. Leitað var eftir undirskrift landeigenda fyrir lagningunni ásamt því að íbúum var boðin þátttaka, þ.e. að tengjast ljósleiðaranum. Verkið var boðið út fyrir um ári síðan og Rósaberg fékk verkið. Í kringum sveitastjórnarkosningar 2018 var lítið gert og nú í apríl 2019 hófust framkvæmdir við lagningu ljósleiðarans á Mýrum. Framkvæmdir þar ganga vel og eru langt komnar. Í kjölfarið verður haldið áfram framkvæmdum í Nesjum. Undirrituð fór á nokkra bæi í Nesjum mánudaginn 1. júlí síðastliðinn ásamt Skipulagsstjóra til að kynna stöðuna á verkefninu þar sem það hefur dregist um eitt ár. Ekki náðist að klára yfirferðina og því standa nokkrir bæir eftir. Sveitarfélagið er í samstarfi við Orkufjarskipti um lagningu ljósleiðarans þar sem það er hægt og leggja þeir sinn eigin streng samhliða streng sveitarfélagsins. Lega strengsins var hönnuð af Mílu og er hægt að skoða lagnaleið á http://map.is/hofn, merkja við ljósleiðari á stiku hægra megin á síðunni.

Þeir sem eiga eftir að skrá þátttöku sína get nálgast eyðublöð þess efnis í afgreiðslu ráðhússins á opnunartíma þess sem er frá kl. 9-12 og 12:45-15. Kostnaður við hverja tengingu er 350.000 kr. án vsk. Verkefnið er hluti af átaki ríkisins „Ísland ljóstengt“ þar sem sveitarfélög gátu sótt um styrki til þess að leggja ljósleiðara í dreifbýli. Sveitarfélagið hefur einnig fengið styrk til þess að leggja ljósleiðara í Lóni og er stefnt að þeim framkvæmdum á næsta ári eða 2020.

Ef íbúar óska þess að fá frekari upplýsingar er hægt að hringja í afgreiðslu ráðhússins í síma 470 8000 eða senda tölvupóst á netfangið matthildur@hornafjordur.is