Jólahátíð á Höfn

29.11.2016

Jólahátíð á Höfn var að venju haldin hátíðleg í upphafi aðventu sem bar nú upp sunnudaginn 27. nóvember. Húsfyllir var í Nýheimum sem að þessu sinni var breytt í litla jólaveröld. 

Jólahátíð á Höfn var að venju haldin hátíðleg í upphafi aðventu sem bar nú upp sunnudaginn 27. nóvember. Húsfyllir var í Nýheimum sem að þessu sinni var breytt í litla jólaveröld. Þar var meðal annars boðið upp á jólabíó og jólaföndur sem vakti mikla lukku, auk þess sem fjölbreyttar vörur voru á jólamarkaðnum og ilmandi kræsingar lokkuðu að hjá Jólakaffi FAS. Yngri kynslóðin beið spennt eftir Jólalestinni frá Dilksnesi sem mætti í allri sinni dýrð og ekki var nú gleðin minni þegar jólasveinarnir sjálfir mættu í lestina! Þeir komu að venju færandi hendi og fengu öll börnin ljúffengar mandarínur frá köllunum. Að lestarferð lokinni stilltu jólasveinarnir upp í myndatöku með börnunum, stórum og smáum og er foreldrum bent á að hafa samband við Menningarmiðstöð Hornafjarðar ef þau vilja fá senda mynd af sínu fólki.

Leikskólabörnin tóku lagið af sinni alkunnu snilld og Lúðrasveit Hornafjarðar lék ljúfa tóna áður en hátíðinni var slitið með því að Lejla Mujkic, nemandi í 1.S., tendraði ljósin á fallega jólatrénu okkar.

Öllum sem komu að hátíðinni eru færðar hlýjar þakkir fyrir sitt framlag og takk kærlega kæru íbúar fyrir að koma og eiga saman notalega samverustund á aðventunni.