Velkomin í Gömlubúð!
Gamlabúð opnaði á ný með fjölmennri og líflegri opnunarhátíð 31. maí og hefur síðan þá tekið á móti yfir 2.600 gestum. Húsið býður upp á menningarviðburði, sýningar og notalegt andrúms-loft.
Það ríkti líf og fjör í Gömlubúð laugardaginn 31. maí þegar húsið opnaði dyr sínar á ný. Um 400 gestir sóttu opnunarhátíðina, þar sem boðið var upp á lifandi tónlist, listasýningar og notalega kaffistund. Á aðeins einum mánuði frá opnun hefur menningarmiðstöðin tekið á móti yfir 2.600 gestum í húsið, sem endurspeglar skýrt mikilvægi Gamlubúðar sem opin og lifandi vettvang fyrir íbúa svæðisins og gesti þess.
Auk upplýsingamiðlunar og sýningu á völdum gripum byggðasafnsins fá gestir Gömlubúðar tækifæri til að skoða tvær sýningar sem setja sterkan svip á menningarhlutverk Gömlubúðar.
Fyrri sýningin, „Íslandsmyndir frá 1836“, samanstendur af eftirprentum á teikningum franska listamannsins Auguste Mayer sem ferðaðist um Ísland á fyrri hluta 19. aldar. Myndirnar veita dýrmæta innsýn í landslag og mannlíf landsins eins og það birtist augum erlends gests fyrir tæpum tveimur öldum og gefa sýn á Ísland sem fáir hafa séð áður. Alls eru 14 teikningar á sýningunni, þær teikningar sem eru frá okkar svæði, Sveitarfélaginu Hornafirði.
Seinni sýningin, „Eldur, ís og mjúkur mosi“, er afrakstur skapandi vinnu nemenda í Grunnskóla Hornafjarðar og í Hofgarði í Öræfum. Þar túlka börn náttúru Íslands á litríkan og hugmyndaríkan hátt. Listakonurnar Hanna Dís Whitehead og Eva Bjarnadóttir leiddu nemendur í gegnum ferlið. Verkefnið var unnið í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands, Vatnajökulsþjóðgarð, Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Hönnunarmars. Sýningin var áður í Perlunni og Skaftafelli og er nú komin til Gamlubúðar, þar sem hún fær að njóta sín í nýju samhengi.
Til viðbótar við þessar glæsilegu sýningar eru myndbönd frá náttúru Vatnajökulsþjóðgarði og viðtöl við heimamenn sem þjóðgarðurinn og Ríki Vatnajökuls veittu góðfúslegt leyfi til birtingar.
Dagskrá Gamlubúðar í júní var fjölbreytt og vel sótt. Á miðvikudögum fylltist húsið af tónlist og stemningu þegar Hornfirskt tónlistarfólk steig á svið og bauð uppá sannkallaða tónlistarveislu. Hlýlegt andrúmsloft skapaðist og laðaði að sér fjölbreyttan hóp gesta.
Í júní var einnig haldinn áhugverður fyrirlestur um hagnýta öndun með Gunnari Erni, þar sem þátttakendur fengu innsýn í tengsl öndunar, heilsu og andlegrar vellíðunar. Bæjarstjórn hélt sinn síðasta fund fyrir sumarfrí í risinu. Opin vinnustofa um skipulagsmál svæðisins fór fram undir stjórn Brynju Daggar. Þar gafst íbúum kostur á að koma hugmyndum sínum og sjónarmiðum á framfæri, sem verður nýtt til áframhaldandi mótunar á þróun byggðar og umhverfismála. Þá var kjallari Gamlubúðar nýttur á Humarhátíð þegar pop-up húðflúrstofa var sett upp með listamönnunum Emi Dungal og GoodboyGunnar. Viðburðurinn vakti mikla athygli og sýndi vel fjölbreytta möguleika Gamlubúðar sem vettvangs fyrir skapandi og óhefðbundna viðburði.
Samhliða enduropnun hússins hafa tveir nýir verkefnastjórar hafið störf fyrir Menningarmiðstöð Hornafjarðar og hafa aðsetur í Gömlubúð. Guðbjörg Halldóra Ingólfsdóttir, verkefnastjóri ferðamála, hún hefur víðtæka reynslu af ferðaþjónustu og vann meðal annars áður sem landvörður í Gömlubúð. Hún hefur látið til sín taka á þessum stutta tíma og komið Gömlubúð í sýningarhæft ástand. Þá hóf Vilhjálmur Magnússon störf 1. júlí en hann er verkefnastjóri viðburða og markaðsmála. Vilhjálm þekkja margir Hornfirðingar úr menningarlífinu en hann stýrði einnig Vöruhúsinu og Fab Lab smiðju Hornafjarðar. Auk verkefnastjóranna standa Eugénie og Ivan vaktina um kvöld og helgar og sjá til þess að vel sé tekið á móti gestum á opnunartíma hússins. Gamlabúð er opin alla daga kl.14-20.
Opnun Gömlubúðar markar upphaf nýs og spennandi kafla, þar sem áhersla verður lögð á að efla listir, menningu og samfélagsþátttöku í heimabyggð. Ýmsar spennandi hugmyndir um hvernig hægt er að þróa Gömlubúð enn frekar sem opinn og lifandi vettvang. Í risinu sjáum við fyrir okkur sveigjanlegt fjölnota rými fyrir skapandi starfsemi, kynningar og samveru, á meðan kjallarinn er pop-up rými þar sem íbúar geta staðið fyrir litlum sýningum, viðburðum, basar eða öðrum skemmtilegum uppákomum. Markmiðið er að skapa líf, hreyfingu og möguleika fyrir samfélagið allt í Gömlubúð. Endilega hafðu samband ef þú vilt taka þátt!
Hlökkum til að sjá ykkur í Gömlubúð.