• 1_1761223960851

Kvennafrídagsmálþing

23.10.2025

Síðastliðinn mánudag, 20. október, stóð Bókasafn Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar fyrir málþingi í Grunnskóla Hornafjarðar fyrir alla nemendur í 9. og 10. bekk. Tilefnið var að föstudaginn 24. október eru 50 ár liðin frá því að konur gengu út frá störfum sínum og börðust fyrir jafnrétti.

Almenningsbókasöfn um land allt hafa sameina krafta sína undir merkjum verkefnisins Læsi á stöðu og baráttu kvenna þar sem vakin er athygli á jafnréttisbaráttunni Veglega dagskrá verkefnisins má sjá hér https://borgarbokasafn.is/laesi-stodu-og-barattu-kvenna/laesi-stodu-og-barattu-kvenna-dagskra

Málþing Menningarmiðstöðvarinnar fór fram í Vöruhúsinu þar sem um 40 nemendur á aldrinum 15-16 ára tóku þátt. Í upphafi voru flutt áhugaverð erindi þar sem farið var yfir sögu Kvennafrídagsins og stöðuna í dag. Eftir erindin fengu nemendur að ræða málin sín á milli og svöruðu spurningum í tengslum við umfjöllunarefnið.

Málþinginu stýrði Sandra Björg, bókavörður á Menningarmiðstöð Hornafjarðar en hún hóf málþingið á að segja ungmennunum frá bókinni Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur þar sem farið er yfir sögu hins fyrsta Kvennafrídags árið 1975.

2_1761223962586
Fyrsti gestur málstofunnar var Ragnhildur Jónsdóttir sem var tæplega tvítug árið 1975. Sagði hún ungmennunum frá stöðunni þá og tók mörg dæmi úr samfélagsmyndinni sem þá var við lýði. Sem dæmi nefndi hún vinkonu sína sem hafði verið deildarstjóri í banka með margra ára reynslu. Á þessum árum var ráðinn karlmaður í sambærilega stöðu í bankanum en hann hafði um árabil unnið sem smiður og því svo til reynslulaus í bankastörfum. Maðurinn fékk þó strax mun hærri laun en konan. Bankastjórinn svaraði fyrirspurn um hvernig á því stæði á þá leið að nýji starfsmaðurinn væri karlmaður og þyrfti að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Konan var þó einstæð tveggja barna móðir og mun reynslumeiri starfsmaður. Sagan vakti töluverðan áhuga og undrun meðal fundargesta. Ragnhildur talaði einnig beint til drengjanna um þá ábyrgð sem krafist var af þeim áður fyrr, t.d. hvað varðar tekjuöflun heimilisins og karlmennsku ímynd.

Næst tók til máls Eyrún Fríða Árnadóttir, kynjafræðingur og formaður bæjarráðs en hún ræddi við ungmennin um stöðuna núna að hennar mati og mikilvægi þess að taka þátt í að bæta samfélagið og berjast fyrir betri heimi. Talaði hún um að þó margt hefði breyst til batnaðar þá væri enn ætlast til margs af ungum konum sem ekki er krafist af ungum mönnum, t.d. þegar kemur að þriðju vaktinni og umönnun ungabarna.

Að lokum ræddi Anna Birna Elvarsdóttir, jafnréttisfulltrúi sveitarfélagsins, við ungmennin en hún kynnti fyrir þeim Jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og hvað í henni fælist. Markið jafnréttisáætlunar er að tryggja íbúum og starfsfólki sveitarfélagsins lögbundin réttindi, koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna og jafna þannig stöðu þeirra á öllum sviðum samfélagsins.

Í seinni hluta málþingsins var ungmennunum skipt í umræðuhópa þar sem þau voru beðin um að velta fyrir sér og svara spurningum um hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart í umræðunum á undan. Hvernig þau mætu stöðuna í dag og hvernig þau horfðu til framtíðarinnar.

Mörg minntust á að það kæmi þeim á óvart hve stutt sé síðan að kynbundið ójafnrétti hafi verið eins algengt og það var. „Þetta var þá ekki bara í torfkofunum í fornöld!“ Einnig bar nokkuð á að stúlkurnar teldu strákana fáfróða um fortíðina og mikilvægt að þeir átti sig á sögunni „Það er mikilvægt að drengir fái að vita kostina og gallana um jafnrétti!“ Þess ber þó að geta að strákahóparnir tóku flestir fram að umræðurnar hefðu verið góðar og flottar en vildu þó ekki meina að hún hefði komið þeim á óvart. Einnig minntust þónokkrir á áðurnefndar umræður Ragnhildar Jónsdóttur um t.d. kynbundin launamun.

3bVarðandi stöðuna í dag voru öll sammála um að mikið vatn hefði runnið til sjávar og staðan væri töluvert betri nú en fyrir 50 árum. Þó mætti alltaf gera betur. Einnig var mörgum umhugað um stöðuna í öðrum löndum og að við ættum að láta okkur hana varða.

Þegar kom að framtíðinni komu margir inn á að einnig væri mikilvægt að berjast fyrir jafnrétti annara hópa. Kvenréttindi væru vissulega mikils metin á Íslandi en því miður væri ekki hægt að segja það sama um marga aðra hópa. Einn vinnuhópur tók sérstaklega fram að það væri jafnréttismál að lækka verð á tíðavörum og getnaðarvörnum og uppskar mikinn fögnuð samnemenda sinna.

Málþingið heppnaðist einstaklega vel og ungmennin voru áhugasöm og tóku virkan þátt. Menningarmiðstöð Hornafjarðar þakkar öllum þátttakendum sem og gestum kærlega fyrir samstarfið og óskar öllum gleðilegs Kvennafrídags á föstudaginn.