Leikskólabörnin aftur mætt í skólann sinn
Leikskólinn Sjónarhóll opnaði í dag eftir sumarfrí og ríkti mikil gleði þegar börnin mættu aftur. Þótt fyrsti morguninn eftir frí geti reynst smá áskorun hlakka flestir til að komast aftur í rútínu og þar skipar leikskólinn mikilvægan sess.
Stækkun leikskólans með tveimur nýjum deildum, Mikley og Borgey, breytir miklu í starfseminni. Nýju deildirnar eru bæði glæsilegar og rúmgóðar, og verður bæjarbúum boðið í heimsókn þegar frágangi verður lokið.
Nú verður hægt að taka inn öll eins árs börn í vetur og er gert ráð fyrir að aðlögun þeirra sem eru orðin eins árs verði lokið um 10. september. Framvegis munu börn geta hafið leikskólagöngu í kringum eins árs afmæli, óski foreldrar þess.
Vel hefur gengið að manna leikskólann og þegar allir snúa úr sumarleyfi verður hann fullmannaður. Í brúnni standa þær Maríanna leikskólastjóri og Elínborg, aðstoðarleikskólastjóri sem hafa stýrt Sjónarhóli frá stofnun hans árið 2018. Þær hafa leitt bæði sameiningu og nú stækkun skólans úr sex deildum í átta.
Það gleymist oft hvað breytingar geta verið erfiðar. Þær reyna á starfsfólk, börn og foreldra en þegar þær eru gerðar spennandi og eftirsóknarverðar, eins og nú, skapar það jákvæða stemningu. Þar hafa þær Maríanna og Elínborg verið dýrmætir leiðtogar og sendir sveitarfélagið þeim og öllu starfsfólkinu hjartans þakkir fyrir metnaðarfullt og óeigingjarnt starf.
Bestu óskir um farsælt og spennandi skólaár.
Áfram Sjónarhóll