Losunardögum sorps fjölgað

30.1.2018

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 29. janúar breytingu á sorphirðu í þéttbýli, þannig að lífrænt og óendurvinnanlegt sorp verður losað á þriggja vikna fresti í stað mánaðarlega.

Í haust var losunardögum á óendurvinnanlegu sorpi fækkað eftir að ákveðið var að breyta stærð á tunnum við heimili. Áður voru tunnurnar 140 l. og losaðar á tveggja vikna fresti. Við breytinguna var tunnan undir óendurvinnanlegt efni stækkuð í 240 l. og 37 l.  hólf undir lífrænt efni sett ofan í tunnuna. Ákveðið var að losa einu sinni í mánuði eða fjögurra vikna fresti. Í ljós hefur komið að sú tíðni hentar ekki fyrir lífrænt sorp og var því ákveðið að fjölga losunardögum þannig að losað verði á þriggja vikna fresti.  

Þá samþykkti bæjarráð að bjóða þeim sem vilja 140 lítra tunnu í stað lífræna hólfsins, án aukakostnaðar. Beiðni um slíka breytingu þarf að berast afgreiðslu ráðhúss í síma 470-8000 eða á afgreidsla@hornafjordur.is. Einnig stendur íbúum til boða að fá auka tunnur fyrir endurvinnanlegt og óendurvinnanlegt sorp gegn gjaldi, sjá gjaldskrá sorphirðu hér . Íbúar geta ávallt losað sorp á opnunartímum móttökustöðvar með klippikorti auk þess sem flokkunarbarinn fyrir endurvinnanlegt efni er alltaf opinn.