• Image007

Málþing um öryggisinnviði í Skaftafellssýslum

16.4.2024

Miðvikudaginn 17. apríl verður haldið málþing um öryggisinnviði í Skaftafellssýslum, allt frá Mýrdalshreppi austur í Hornafjörð. 

Innviðir sem tengjast öryggi íbúa og ferðamanna í Skaftafellssýslum eru mjög þandir og ekki í neinum takti við þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem sækir svæðið heim. Hefur það leitt til mikils og langvarandi álags á viðbragðsaðila.

Malthing-slide-5

Það ljóst að ekki er til einföld lausn á þessari áskorun. Það krefst sameiginlegrar sýnar og átaks allra hagaðila, þar sem unnið er að markmiðum til framtíðar.

Þátttakendur á málþinginu eru fulltrúar frá sveitarfélögunum þremur í Skaftafellssýslum; Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og Hornafirði, Lögreglunni á Suðurlandi, Vegagerðinni, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, viðbragðsaðilum á Suðurlandi, slökkviliði, sjúkraflutningum og björgunarsveitum, þingmönnum Suðurlands ásamt ráðherrum, en aðeins dómsmálaráðherra gat þekkst boðið að þessu sinni, fulltrúar frá Vatnajökulsþjóðgarði, Sýslumanninum á Suðurlandi, ferðamálafélögum og Ferðamálastofu sem og fulltrúum Rauða Krossins. 

Áhugi á málþinginu er mikill og hafa yfir 50 manns staðfest komu sína. Verður málþingið haldið í ráðstefnusal Fosshótels Vatnajökuls. Fundarstjóri verður Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar.

Dagskrá:

11:00 til 11:10 - Setning – Sigurjón Andrésson bæjarstjóri Hornafjarðar

11:10 til 12:15 - Fjögur erindi, Sveinn Hreiðar Jensson hótelstjóri Hótel Klaustur á Kirkjubæjarklaustri og sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi, Auðbjörg Bjarnadóttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri, Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Hrafnhildur E. Karlsdóttir hótelstjóri á Fosshótel Glacier Lagoon á Hnappavöllum í Öræfum.

12:15 til 12:45 - Hádegisverður - súpa, brauð, kaffi og kökubiti.

12:45 til 14:00 - Umræður og pallborð – í pallborði verða Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Suðurlands og dómsmálaráðherra, Brynja Dögg Ingólfsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Hornafjarðar, Vilhjálmur Árnason þingmaður Suðurlands, varaformaður þingflokks XD og annar varaformaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Sveinn Sveinsson svæðisstjóri hjá Vegagerðinni og Grímur Hergeirsson lögreglustjóri á Suðurlandi.

14:00 - Fundi slitið.

Sveitarfélögin upplifa mikinn samstarfsvilja til framfara og eiga von lausnamiðuðum og uppbyggilegum umræðum á málþinginu.