Matthildur Ásmundardóttir ráðin bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Hornafirði

24.7.2018

Matthildur Ásmundardóttir framkvæmdastjóri HSU Hornafirði hefur verið ráðin bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Matthildur er 40 ára gömul og hefur undanfarin sex ár starfað sem framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hornafirði. Áður starfaði hún sem sjúkraþjálfari hjá HSSA og sjálfstætt á eigin stofu.

Matthildur lauk BSc í sjúkraþjálfun frá HÍ árið 2002,  MSc í íþrótta- og heilsufræði frá HÍ árið 2011 og Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá HA 2017.

Matthildur hefur reynslu af sveitarstjórnarmálum og sat í ýmsum nefndum sveitarfélagsins á árunum 2006-2012. Í starfi framkvæmdastjóra HSU Hornafirði og nefndarstörfum hefur hún unnið að stefnumótunarvinnu í heilbrigðisþjónustu, tómstunda-, skóla- og menningarmálum þá sat  hún í stýrihóp sem mótaði Fjölskyldustefnu sveitarfélagsins.

Matthildur hefur einnig verið virk í félagsstörfum á Hornafirði.

Matthildur er gift Hjálmari J. Sigurðssyni, sjúkraþjálfara og saman eiga þau þrjú börn, Tómas Orra 14 ára, Elínu Ásu 12 ára og Sigurð Arnar 6 ára.

Matthildur hefur störf 1. september nk.