Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

13.11.2018

Eins og áður hefur komið fram verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi sunnudaginn 18. nóvember nk. Efnt verður til athafnar við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík í sjöunda sinn kl. 16:00 og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Oft þarf lítið til að skapa réttu kringumstæðurnar til að virkja vitund viðstaddra fyrir ábyrgð sinni í umferðinni og votta fórnarlömbum virðingu sína. Dagurinn er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Eru þessum starfsstéttum færðar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf þeirra.