• Midbaer-Hafnar

Nýr miðbær á Höfn – stórt skref fyrir samfélagið okkar

(Grein eftir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóra Hornafjarðar)

14.10.2025

Í síðustu viku samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar samhljóða viljayfirlýsingu við þróunarfélagið Landsbyggð ehf. um skipulag, uppbyggingu og úthlutun lóða á nýju miðbæjarsvæði á Höfn. Með því stígum við mikilvægt skref í átt að spennandi framtíðarverkefni sem hefur verið lengi í undirbúningi og mun móta miðpunkt bæjarins til næstu áratuga.

Verkefnið snýst um að byggja upp lifandi og aðlaðandi miðbæ þar sem mannlíf, verslun, þjónusta, menning, íbúðir og opin svæði mætast og mynda heild. Innan þróunarsvæðisins eru annars vegar lóðir og opin svæði í eigu sveitarfélagsins og hins vegar lóðir sem Skinney-Þinganess hf. hefur til umráða. Auk þess eru á svæðinu fjölmargir aðrir rekstraraðilar og lóðarhafar sem verða kallaðir til samtals og samráðs. Samstarf þessara aðila og Landsbyggðar skapar góða forsendu fyrir vel skipulagða og markvissa þróun nýja miðbæjarins.

Hotel-view-renderTölvuteiknuð mynd sem sýnir hvernig ásýnd hafnarinnar gæti orðið með hótelbyggingu að suðvestanverðu.

Landsbyggð hefur reynslu af sambærilegum verkefnum, en verkefnið hér verður mótað sérstaklega fyrir Hornafjörð og byggir á okkar sérkennum og samfélagslegum markmiðum. Lykilatriði í nálguninni er að nýr miðbær verði hannaður og byggður fyrst og fremst fyrir nær samfélagið – okkur sem búum og störfum hér. Með því að leggja áherslu á staðaranda og heimafólk ætti að skapast hlýlegt og fallegt umhverfi sem þjónar íbúum og laðar að gesti á náttúrulegan hátt.

Í samkomulaginu eru sömu ákvæði um skipulag, ábyrgð og tímasetningar og gilda um aðrar lóðir og framkvæmdir í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið og Landsbyggð má hvorki framselja né veðsetja réttindi án samþykkis sveitarfélagsins. Skýr tímamörk eiga að tryggja framgang framkvæmda, annars falla réttindi aftur til sveitarfélagsins.

Midbaer-Hafnar-SkissaAlgjör frumhugmynd – en gefur hugmynd um hvernig má færa miðbæinn nær höfninni

Mikil áhersla verður lögð á íbúasamráð. Áður en nokkuð verður samþykkt verða haldnir kynningarfundir og verkefnið kynnt íbúum með skýrum hætti. Tillögur að skipulagsbreytingum verða síðan lagðar fyrir íbúakosningu eða rafræna íbúakönnun. Það er okkur afar mikilvægt að samfélagið allt fái rödd í mótun nýja miðbæjarins.

Frumkvæðið að verkefninu kemur frá Skinney-Þinganess hf., og á fyrirtækið nú í viðræðum við Landsbyggð um þátttöku í verkefninu. Það er bæði ánægjulegt og hvetjandi að sjá heimafólk fjárfesta í eigin samfélagi og leggja sitt af mörkum til framtíðaruppbyggingar. Það er sannarlega spennandi tími framundan og björt framtíð hér í Hornafirði.

Ef einhverjar spurningar vakna sem ekki er fjallað um í greininni eða hér að neðan í Q&A, hvetjum við ykkur til að hafa samband við sveitarfélagið. Allar nánari upplýsingar veitir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri, í síma 781-2201 eða á netfanginu sigurjon@hornafjordur.is.



Algengar spurningar og svör um miðbæjarverkefnið

Verkefnið um uppbyggingu nýs miðbæjar á Höfn hefur vakið áhuga og eðlilegt er að íbúar, fyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar hafi ýmsar spurningar. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman algengar spurningar og svör sem varpa ljósi á helstu atriði verkefnisins, ferlið fram undan og hlutverk ólíkra aðila.

Markmiðið er að tryggja gagnsæi, upplýsta umræðu og virka þátttöku samfélagsins í mótun þessa mikilvæga verkefnis.


Hver er tilgangur verkefnisins?
Markmiðið er að byggja upp lifandi og aðlaðandi miðbæ á Höfn þar sem samfélagslíf, þjónusta, íbúðir, menning og opin svæði mætast. Verkefnið styrkir bæjarbrag, eykur aðdráttarafl svæðisins og skapar tækifæri fyrir íbúa, fyrirtæki og gesti – líkt og sést hefur í sambærilegu verkefni á Selfossi.

Verkefnið er í samstarfi við sömu aðila og byggðu upp miðbæinn á Selfossi í „gömlum stíl“. Er ætlunin að nota svipaða nálgun á Höfn?

Nei, það hefur ekki verið rætt að endurtaka sama byggingarstíl og á Selfossi. Hver staður hefur sína sérstöðu og útlit bygginga verður mótað sérstaklega fyrir Höfn á síðari stigum skipulagsvinnunnar. Markmiðið er að skapa hlýlegt, fallegt og aðlaðandi umhverfi sem endurspeglar karakter Hornafjarðar og höfðar bæði til heimamanna og gesta.

Í kynningu sem var fyrir bæjarstjórn sagði Landsbyggð að nýi miðbærinn eigi að draga fram sérkenni svæðisins og að hann endurspegli karakter Hornafjarðar. Er það góð nálgun?

Já, það er góð og farsæl nálgun. Þegar miðbær er mótaður út frá þörfum og sérkennum heimafólks verður hann lifandi og notalegur staður allt árið. Slík uppbygging styrkir bæjarbrag og samfélagslega festu og styður sjálfsmynd íbúa.

Ferðamenn sækja síðan í staði sem hafa þessa sérstöðu og hlýju — þannig verður miðbærinn aðdráttarafl á náttúrulegan hátt, ekki manngert sýningarstykki. Þetta er stefna sem byggir á þátttöku og langtímasýn.

Hvernig verða íbúar og fyrirtæki hafðir með í ráðum?
Landsbyggð og sveitarfélagið munu halda minnst þrjá opna kynningarfundi um verkefnið áður en ákvörðun verður tekin.
Tillögur að skipulagsbreytingum og samkomulaginu sjálfu verða lagðar fyrir íbúakosningu eða rafræna íbúakönnun. Þannig tryggjum við að samfélagið fái raunverulegt vald og rödd í mótun nýs miðbæjar.

Er verið að „framselja miðbæinn“ til einkaaðila?
Nei. Sveitarfélagið heldur öllu skipulagsvaldi og allar ákvarðanir fara í gegnum umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn.

Samkomulagið nær eingöngu til lóða og svæða sem eru á hendi sveitarfélagsins, ekki annarra.
Landsbyggð má hvorki framselja né veðsetja réttindi nema með samþykki sveitarfélagsins. Sveitarfélagið stýrir því áfram þróun svæðisins.

Hvað með þá sem þegar eru með lóðir eða starfsemi á svæðinu?
Þau verða virkir þátttakendur í ferlinu enda kemur skýrt fram í samkomulaginu rík áherslu á að þróun og uppbygging nýs miðbæjar fari fram í anda samráðs og samstarfs.

Á næstu vikum mun Landsbyggð hefja samtal við alla lóðarhafa til að tryggja jafnræði og samræmda uppbyggingu. Rétt er að ítreka að verkefnið nær ekki til lóða annarra aðila nema í samráði – enginn verður útundan eða neyddur til að taka þátt.

Hvernig geta einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari uppbyggingu komið að verkefninu?

Það er eindreginn vilji aðila til að virkja kraft samfélagsins í þessu verkefni. Nú fer í hönd samráðsferli þar sem sérstaklega verður leitað eftir hugmyndum, tillögum og frumkvæði frá athafnasömum og hugmyndaríkum Hornfirðingum.

Þetta verður gert með margvíslegum hætti – meðal annars með opnum íbúafundum, smærri vinnufundum með ólíkum hópum og jafnvel hugmyndabanka þar sem íbúar geta sent inn hugmyndir og tekið þátt í umræðu um framtíð nýja miðbæjarins. Verkefnið snýst nefnilega ekki aðeins um byggingar heldur um mannlíf, sérkenni og framtíðarsýn okkar.

Hvernig verður tryggt að þetta verði ekki bara fjárfestingarverkefni?
Í skipulagi og lóðarskilmálum verður kveðið á um blöndun íbúða, þjónustu, verslunar, menningar og opinna svæða.
Lögð er áhersla á að miðbærinn þjóni samfélaginu í heild – ekki eingöngu fjárfestum. Sveitarfélagið fer með skipulagsvaldið og getur tryggt að samfélagsleg markmið séu í forgangi.

Hver ber kostnað af götum, innviðum og frágangi?
Ef Landsbyggð tekur að sér gatnagerð og uppbyggingu innviða falla hefðbundin gatnagerðargjöld niður, en þeir bera þá kostnaðinn.
Gert verður sérstakt samkomulag um gatnagerð og frágang samhliða skipulagsvinnu. Sveitarfélagið tekur ekki á sig fjárhagslega skuldbindingu vegna innviðauppbyggingar, en gæði og frágangur verða tryggð með skilyrðum og eftirliti.

Hvernig verður tryggt að verkefnið festist ekki í hálfkláruðum framkvæmdum?
Í samkomulaginu eru skýr tímamörk og um lóðir og framkvæmdir gilda reglur sveitarfélagsins nema sérstaklega sé samið um annað.

Ef frestum er ekki sinnt fellur úthlutun úr gildi og lóðir, ásamt framkvæmdum sem kunna að hafa farið fram, ganga aftur til sveitarfélagsins án endurgreiðslu.