• Bjorgunar_skip_Mynd_

Nýtt björgunarskip fagnað með hátíðlegri móttöku og nýrri flotbryggju við Hornafjarðarhöfn

11.7.2025

Björgunarskipið Ingibjörg verður lykilþáttur í nútímalegu og öflugu björgunarstarfi á svæðinu.

Hornafjarðarhöfn hefur síðustu vikur unnið af miklum krafti að uppsetningu nýrrar flotbryggju, sem mun gegna lykilhlutverki í framtíðarskipulagi hafnarinnar. Nýja björgunarskipið Ingibjörg mun liggja við þessa bryggju og verður hún því mikilvægur þáttur í öflugu og nútímalegu björgunarstarfi á svæðinu. Bryggjan er útbúin öllum helstu innviðum sem nauðsynlegir eru til að tryggja skilvirka þjónustu við skipið, þar á meðal rafmagnstengingar og vatnslagnir.

Björgunarfélag Hornafjarðar ætlar að fagna komu nýja björgunarskipsins Ingibjargar með hátíðlegri móttöku við höfnina. Heimamönnum og gestum er boðið að taka þátt í þessum merku tímamótum og sameinast um að bjóða skipið velkomið til hafnar.

Áætlað er að Ingibjörg sigli inn til hafnar klukkan 12:00 á morgun 12.júlí. Við móttöku skipsins verða flutt stutt ávörp og í kjölfarið mun prestur blessa skipið formlega.

Að blessun lokinni gefst gestum kostur á að skoða skipið, bæði að innan sem utan. Slökkvilið Hornafjarðar verður til staðar og tekur þátt í dagskránni og Slysavarnadeildin býður upp á veitingar til að skapa hlýlegt og samfélagslegt andrúmsloft á bryggjunni.

Hlökkum til að sjá ykkur!