Plastpokalaus Hornafjörður

14.12.2016

Fyrir stuttu barst Pokastöðinni á Höfn skemmtileg sending þegar hópur 1. bekkinga í Grunnskóla Hornafjarðar mættu ásamt kennurum sínum Önnu Björg og Evu Ósk og gáfu í körfuna fullt af heimasaumuðum og fallega skreyttum taupokum.

Anna Björg, textílkennari, hóf verkefnið í haust og var það byggt á samstarfi krakkanna í eldri bekkjum ásamt börnum úr fyrsta bekk. Þau eldri sáu um að sauma og yngri skreyttu pokana að vild. Krakkarnir voru stoltir af sínum poka og þótti verkefnið skemmtilegt. Framtak skólans er vert, mikilvægt er að kenna krökkunum okkar frá unga aldri að hugsa vel um umhverfið og er pokastöðin okkar liður í því. Mig langar að benda foreldrum á að það gæti verið sniðug leið til að virkja krakkana að fá þau til að hlaupa í körfuna að sækja poka þegar komið er á kassa. 

 

Allir sem vilja taka þátt í verkefninu á einn eða annan hátt eru hvattir til að gefa taupoka, gamla, nýja eða heimasaumaða og muna að vera dugleg að skila þeim til baka þegar þið sjáið að það er að minnka í körfunni. Einnig má gefa gamla boli sem má skila á skrifstofu Guðrúnar í Nýheimum.

 

Takk fyrir pokana krakkar!

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir

Verkefnastjóri og atvinuráðgjafi

Þekkingarsetrið Nýheimar Höfn