• Hofn-6-

Samantekt vegna máls um gatnagerðargjöld að Hagaleiru 11

23.1.2026

Málið um gatnagerðargjöld að Hagaleiru 11 hefur tekið langan tíma til úrlausnar og skapað óvissu fyrir alla hlutaðeigandi. Nú liggur loks fyrir endanleg niðurstaða sem staðfestir að sveitarfélagið braut hvorki lög né jafnræðisreglu í málinu. Endurgreiðsla gatnagerðargjalda var afleiðing stjórnsýslulegra mistaka ríkisins, og hefur ríkið að fullu viðurkennt bótaskyldu sína.

Þar sem endanleg niðurstaða liggur nú fyrir telur sveitarfélagið rétt og eðlilegt, í þágu gagnsæis og trausts á stjórnsýslu, að draga saman helstu málsatvik og skýra forsendur ákvörðunar í máli sem varðar álagningu gatnagerðargjalda vegna lóðarinnar Hagaleiru 11, sem hefur verið til umfjöllunar frá árinu 2020.

Upphaf málsins og krafa lóðarhafa

Málsatvik eru þau að lóð við Hagaleiru 11 var úthlutað í október árið 2020, eftir að tímabundin heimild sveitarfélagsins til niðurfellingar gatnagerðargjalda rann út, en það var í maí 2019. Í kjölfar úthlutunar barst krafa frá lóðarhafa um niðurfellingu gatnagerðargjalda á grundvelli jafnræðis, með vísan til tilvika þar sem framsal lóðaréttinda hafði verið heimilað eða þar sem framkvæmdafrestir höfðu verið veittir.

Lagagrundvöllur ákvörðunar bæjarráðs

Bæjarráð taldi, að undangenginni ítarlegri skoðun, að ekki væri lagagrundvöllur fyrir niðurfellingu gatnagerðargjalda í þessu tilviki. Heimild til niðurfellingar hafði verið tímabundin og rann út áður en lóðinni var úthlutað. Veiting framkvæmdafrests eða samþykkt framsals lóðarréttinda jafngildir ekki niðurfellingu gatnagerðargjalda og byggir á öðrum lagagrundvelli.

Úrskurðir Innviðaráðuneytisins og ágreiningur um niðurstöðu

Innviðaráðuneytið úrskurðaði árið 2022 að ákvörðun bæjarráðs væri ólögmæt á grundvelli brots gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið hafði þá ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna mistaka í málsmeðferð ráðuneytisins. Sveitarfélagið mótmælti niðurstöðunni, leitaði til óháðra lögfræðinga og Sambands íslenskra sveitarfélaga, og taldi niðurstöðuna byggða á röngum forsendum.

Sveitarfélagið mótmælir og málið endurmetið

Sveitarfélagið hafði þrívegis ákveðið að una ekki úrskurðum ráðuneytisins varðandi það að ákvörðunin hafi verið ólögmæt þegar Innviðaráðuneytið viðurkenndi loks í úrskurði frá 4. febrúar 2025, að sveitarfélagið hefði ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. Þar kom skýrt fram að álagning gatnagerðargjalda, veiting framkvæmdafrests og framsal lóða væru ekki sambærileg tilvik og að lóðarhafar sem fengu úthlutun eftir maí 2019 væru ekki í sömu stöðu og þeir sem nutu niðurfellingar á því tímabili sem reglur um niðurfellingu gatnagerðargjalda giltu.

Afleiðingar rangrar málsmeðferðar ríkisins

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, taldi ráðuneytið sig ekki geta ógilt fyrri úrskurð sinn vegna mögulegs tjóns kærenda, sem hefðu haft réttmætar væntingar um endurgreiðslu gatnagerðargjalda eftir fyrstu niðurstöður innviðaráðuneytisins. Sveitarfélaginu var þar með gert að bera afleiðingar stjórnsýslulegra mistaka ráðuneytisins og endurgreiða gatnagerðargjöldin ásamt málskostnaði og dráttarvöxtum en krafan hljóp á endanum á milljónum króna.

Í kjölfarið óskaði bæjarstjórn eftir fundi með Innviðaráðuneytinu um framhald málsins. Niðurstaðan var sú að sveitarfélagið myndi krefjast viðurkenningar á bótaskyldu ríkisins vegna þess tjóns sem hlotist hafði af rangri málsmeðferð og úrskurðum ráðuneytisins.

Viðurkenning bótaskyldu ríkisins

Ríkislögmaður hefur nú viðurkennt bótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart Sveitarfélaginu Hornafirði í málinu. Sveitarfélagið hefur á öllum stigum málsins byggt ákvarðanir sínar á gildandi lögum, jafnræði íbúa og ábyrgri meðferð opinberra fjármuna.

Í kjölfar þessa hefur verið undirritað samkomulag við ríkislögmann um að ríkið endurgreiði sveitarfélaginu að fullu þann kostnað sem fallið hefur til vegna málsins, þar á meðal lögmanns- og ferðakostnað.

Staðreyndir málsins í hnotskurn:

  • Lóð að Hagaleiru 11 var úthlutað í október 2020, eftir að tímabundin heimild til niðurfellingar gatnagerðargjalda rann út í maí 2019.
  • Í kjölfar úthlutunar var gerð krafa um niðurfellingu gatnagerðargjalda á grundvelli jafnræðis.
  • Bæjarráð taldi, að undangenginni ítarlegri lögfræðilegri skoðun, að ekki væri lagagrundvöllur fyrir niðurfellingu gatnagerðargjalda í þessu tilviki.
  • Veiting framkvæmdafrests eða samþykkt framsals lóðarréttinda jafngildir ekki niðurfellingu gatnagerðargjalda og byggir á öðrum lagagrundvelli.
  • Innviðaráðuneytið kvað árið 2022 upp úrskurð þar sem ákvörðun sveitarfélagsins var talin ólögmæt, án þess að sveitarfélagið fengi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
  • Sveitarfélagið mótmælti úrskurðinum, leitaði til óháðra lögfræðinga og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ákvað þrívegis að una honum ekki.
  • Í úrskurði Innviðaráðuneytisins frá 4. febrúar 2025 var viðurkennt að sveitarfélagið hefði ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og að tilvikin væru ekki sambærileg.
  • Þrátt fyrir það taldi ráðuneytið sig ekki geta ógilt fyrri úrskurð sinn vegna réttmætra væntinga kærenda, og sveitarfélaginu var gert að endurgreiða gatnagerðargjöld ásamt vöxtum og kostnaði.
  • Ríkislögmaður hefur nú viðurkennt bótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart Sveitarfélaginu Hornafirði vegna þess tjóns sem hlaust af rangri málsmeðferð ráðuneytisins.

Ekki alltaf auðvelt – en alltaf nauðsynlegt

Það er hvorki eftirsóknarvert né þægilegt að standa í deilum eða málaferlum við íbúa. Slík mál taka tíma, krefjast þolinmæði og geta verið öllum aðilum þungbær.

Hlutverk sveitarfélagsins er þó ekki aðeins að leysa mál á sem einfaldastan eða vinsælastan hátt hverju sinni, heldur að gæta jafnræðis, fylgja lögum og standa vörð um vandaða og trausta stjórnsýslu – líka þegar á reynir.

Sveitarfélagið Hornafjörður mun hér eftir sem hingað til vinna af heilindum, festu og með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri