Samningur um byggingu nýs hjúkrunarheimilis undirritaður

17.5.2018

Gleðilegum áfanga er fagnað í dag, samningur um stækkun hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs á Hornafirði var undirritaður í heilbrigðisráðuneytinu í hádeginu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins og sveitarfélagsins.

Ásamt Birni Inga voru viðstödd undirritunina var bæjarráð, Sæmundur Helgasson, Lovísa Rósa Bjarnadóttir,  Ásgerður K. Gylfadóttir en hún er einnig hjúkrunarstjóri og Matthildur Ásmundadóttir framkvæmdastjóri HSU á Hornafirði.

Áætlað er að byggja 30 hjúkrunarrými við Skjólgarð. Nú hefst hönnun á byggingunni og í framhaldinu mun byggingin fara í útboð áætlað er að nýtt hjúkrúnarheimili verði tekið í notkun síðla árs 2021.

Á Höfn í Hornafirði eru núna 24 hjúkrunarrými á heimilinu Skjólgarði. Húsnæði Skjólgarðs uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum í dag.

Nýja hjúkunarheimilið verður reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Víkurbraut 31. Velferðarráðuneytið og sveitarfélagið Hornafjörður munu standa saman að byggingu hússins og breytingu sem gerð verður á hluta eldra húsnæðis í tengslum við framkvæmdina.

Aðdragandi þessa samkomulags hefur verið nokkuð langur og ánægjan því mikil að þessum áfanga skuli nú náð. Á fyrri stigum var gert ráð fyrir að rýmin yrðu 24, en nú er niðurstaðan sú að rýmin verða 30 og er það í samræmi við mat ráðuneytisins á þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma á svæðinu á næstu árum.

Áætlaður kostnaður nemur um einum milljarði króna og skiptist þannig að ríkissjóður fjármagnar 85% framkvæmdanna á móti 15% sveitarfélagsins.